Það bættist ný reynsla í bankann í gær, föstudag, þegar ég hélt fyrirlestur við háskólann í Tokyo. Hélt hann reyndar bara á Teams en sá næsti verður sannarlega á staðnum. í Japan var klukkan orðin fjögur síðdegis en hjá mér var hún sjö að morgni og dagurinn rétt að byrja. Það voru sjötíu nemendur sem hlustuðu, þeir hafa sennilega verið orðnir þreyttir eftir vikuna en ég var hin hressasta í morgunsárinu.
Pínu óheppilegt að þetta var einmitt daginn sem Stekkjastaur kom til byggða. Óánægjan meðal barmanna með skógjafirnar (rafmagnstannbursti og hárteygjur) var gríðarleg og Baldur mætti á nærbuxunum í fyrirlesturinn til að láta í ljós vandlætingu sína á tannburstanum.
Ég fór á hundavaði yfir bókmenntasöguna og nefndi höfunda frá öllum Norðurlöndum sem hafa komið út á japönsku, bæði kanónur og glæpasagnahöfunda.
Vegna túlkunar var tíminn af smám skornum skammti svo ég náði ekki að fara yfir síðustu glæruna. Það dró ég fram óvæntan samanburð á japönskum nútímabókmenntum sem ferðast víða um heim þessa dagana og á íslenskri modern Classic.
Ég er aðallega að hugsa um Svövu og Ástu kannski, en það er svo magnað að skynja þennan domestic horror í báðum heimum með fimmtíu ára millibili. Kvennabarátta í Japan er auðvitað miklu seinna a ferð en á Íslandi og mér þóttu þessi líkindi merkileg uppgötvun.




