Home

 • Olla amma

  Olla amma vitjaði mín í draumi í morgun. Hún var svo falleg og það stafaði af henni mikilli hlýju. Mér leið vel þegar ég vaknaði, nýbúin að kveðja ömmu.

  Ég hafði verið að brasa eitthvað og kom til mín. Studdi annað hvort pabba sinn eða frænda sinn, sem var lifandi, en amma var klárlega dáin. Ég sagði (grátandi) að ég hefði gert þetta fyrir hana, en hvað það var veit ég ekki. Eitthvað bras í sambandi við eitthvað. Og amma, sem var á svipuðum aldri og ég í draumnum, öll svo glæsileg og brosmild, sagði að þetta yrði allt í lagi.

  Þetta verður allt í lagi, Stella mín, sagði amma mín við mig í draumnum.

 • Sumarið

  Sumarið kemur nú um mánaðarmótin segja veðurfræðingar en ég er ekki sannfærð. Hér rignir endalaust og allt er orðið fagurgrænt en vorið hefur verið ansi kalt.

  Veðurspáin fyrir næstu daga boðar ekki sumar, nema þá fyrir austan kannski. Ég bíð samt vongóð eftir sumrinu og vona að veðurfræðingarnir reynist sannspáir.

  Annars er allt samkvæmt áætlun í garðinum. Fylltur skógarblámi og júlíulykill eru fyrstu blómin, því næst fyllt hófsóley. Silfursóleyim og gullhnappur (?) eru á leiðinni og geitarskeggið sprettur hratt. Eftirlætið mitt er samt yllirinn sem fer af stað í febrúar og er nú fagurgrænn og breiðir fallega úr sér þétt upp við gróðurhúsið.

  Fyllt hófsóley
  Júlíulykill
  Silfursóley

 • Að stækka um heilt númer á einni nóttu

  Baldur Atli hefur verið þreyttur eftir leikskólann undanfarna daga. Líklega sambland af þreytu eftir veturinn og bið eftir langþráðu páskafríi og svo held ég líka ad litli strákurinn minn sé að stækka.

  Um daginn sofnaði Baldur klukkan sex yfir sjónvarpinu og svo svaf hann til klukkan hálfátta morguninn eftir. Við sögðum við hann að hann hlyti að hafa stækkað um nóttina og snáðinn gáði. Jú, hann reyndist hafa stækkað og tengdi það umsvifalaust við að hann hlyti að vera orðinn fjögurra ára gamall. Nú segist hann vera orðinn fjögurra og það er ekki í boði að andmæla því.

  Annar gullmoli: í morgun sagði Baldur mér sögu sem var alveg hræðileg. Hann taldi upp það allra versta sem honum kom til hugar og átti heima í sögunni: það kom tröllskessa, það kom vofa, það kom hauskúpa, svo kom stjúpa… Minn maður með frásagnarlistina alveg á hreinu.

 • Vorkoman: mjúkt og grátt og loðið

  Eftir óvenju kaldan vetur leikur enginn vafi á því að vorið er komið. Tjaldurinn er löngu kominn til landsins og í lok mars mætti lóan, stundvís venju samkvæmt. Krókusar og vetrargosar eru að rétta úr sér eftir kuldakaflann og rabarbarinn er farinn af stað aftur.

  Annað sem fylgir vorkomunni eru dekkjaskipti. Í fyrsta skipti er ég að skipta um dekk á reiðhjóli en í dag fór ég af nagladekkjum og yfir á slétt sumardekk. Bílarnir okkar tveir, Volvo og Renault, eru á heilsársdekkjum og þar þarf ég því ekkert að brasa.

  Ég brunaði á hjólinu í bæinn efgir dekkjaskiptin og lagði í bílakjallara ráðhússins. Þaðan gekk ég svo yfir í Iðnó, á skrifstofu Bókmenntahátíðarinnar, og naut þess að láta sólina skína á andlitið á meðan ég gekk yfir brúna.

  Þegar ég kom yfir brúna sá ég vorboðann ljúfa: grávíðirinn var orðinn grár og mjúkur og loðinn. Það er víst lítið um kirsuberjatré hér á landi og þau blómstra seint en þetta brum á grávíðinum er ótvírætt merki um vor.

  Þegar ég kom heim beið mín annað fyrirbæri sem var grátt og mjúkt og loðið. Það var lítil mús sem kúrði logandi hrædd úti í horni og beið eftir að Snúður gengi frá henni en sem betur kom ekki til þess því við slepptum henni út í vorið…

 • Þriggja ára

  Baldur Atli er á dásamlegum aldri núna. Hann tekur inn mikið magn upplýsinga í gegnum samtöl, bækur og teiknimyndir og annað og vinnur skemmtilega úr þeim og miðlar nýrri þekkingu til okkar með ýmsu móti.

  Svo er hann mikill grínisti. Hann sat í bílnum um daginn og sönglaði af miklum móð typpi, typpi, typpi (hann er upptekinn af þessu orði og öðrum álíka). Svo þagnaði hann skyndilega og sagði við mig: mamma, þú sagðir typpi.

  Ha? Svaraði ég, ég sagði ekki typpi. Þá svaraði minn maður, mjög prakkaralegur á svipinn: jú, þú sagðir það núna!

 • 5K og tjaldurinn

  Strava taldi ekki kílómetrana mína fimm í frostinu í morgun svo þeir verða skráðir hér. Það var sex stiga frost og sól og hlaupið var dásamlegt eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

  Við Siglunesið var hópur tjalda að vakna af værum blundi. Það var dýrðleg sjón og ómurinn af söngnum var sömuleiðis yndislegur eins og þetta myndskeið sýnir.

 • Mánudagssundið

  Á mánudögum er Una á sundæfingu og þá fæ ég að fara með henni í laugina. Þetta eru meðal bestu stunda vikunnar hjá mér og ég kem alltaf endurnærð uppúr.

  Rútínan er yfirleitt svipuð. Ég syndi á bilinu 1000-1500 metra, er lengi í gufunni og skelli mér svo í kalda. Svo fer ég í gömlu pottana, oftast þann heitari.

  Stundum hitti ég vini eða kunningja en yfirleitt finnst mér bara best að vera ein og segja sem fæst. Sérstaklega er gott þegar eg næ að synda langt og næ þar með þessu hugleiðsluástandi sem mér finnst svo gott að ná. Það næst yfirleitt eftir 600 m eða svo.

 • Shakespeare fyrir alla

  Um daginn poppaði upp hjá mér skemmtileg minning á Facebook. Þetta var draumur sem mig dreymdi fyrir sex árum síðan, vorið 2017.

  Í draumnum var ég stödd á bókamessu og komin á fund með agenti. Hann spyr hverju ég sé að leita að og ég svara að bragði að ég sé að leita að up market commercial og women’s fiction, en það er auðvitað það sem ég leita stöðugt að.

  Þá svarar okkar maður harla glaður að hann sé einmitt með það sem ég er að leita að! Svo dregur hann upp heildarverk Shakespeare, leðurinnbundnar bækur alsettar gyllingum.

  Ég velti þessu fyrir mér um stund og vóg og mat möguleikana. Loks stundi ég upp að jú, þetta gæti eflaust gengið, en það þyrfti að skoða það að skipta um kápu…

 • Vinkonuferð í vetrarfríi

  Þórdís og vinkonur hennar fengu mömmurnar með sér í vinkonuferð til London. Ferðin var skipulögð með löngum fyrirvara og allir fengu tíma til að hlakka til. Leit ekki vel út á tímabili vegna verkfallana en þau höfðu engin áhrif á þessa tilteknu ferð.

  Við gistum í Shore Ditch en þangað hafði ég aldrei komið. Í hverfinu er mikil veggjalist, verk eftir Banksy meðal annars og Brick Lane sem er fræg gata. Í þessum borgarhluta búa margir með bengalskan uppruna og stemningin er alveg sérstaklega lifandi og skemmtileg. Hótelið var gott og mun huggulegra en bókamessuhótelin við Tottenham Court.

  Hápunktur ferðarinnar var Mamma Mia partýið þar sem stelpurnar dönsuðu og sungu allt kvöldið og skemmtu sér og öðrum hrikalega vel, en annars var allt vel lukkað: út að borða, búðarferðir og labb um alla borg.

 • Að dreyma fyrir nafni

  Una Karítas fæddist á Valentínusardaginn árið 2014 og varð því níu ára gömul í vikunni. Það var mikil spenna fyrir deginum og spennan er ekki síðri fyrir 10 ára afmælið að ári, tveggja stafa tala og stórafmæli.

  Afmælisstúlkan

  Skömmu áður en ég varð ólétt að henni dreymdi mig fyrir nafninu. Draumurinn var á þá leið að ég var ólétt og ég fór ofan í peysuna með höndina og náði í litla stúlku. Ég hélt á henni um stund fyrir framan mig en sá að hún var ekki reiðubúin að fæðast strax. Setti hana því aftur ofan í peysuna en vissi í draumnum að ég mundi brátt eignast stúlkubarn sem ætti að heita Karítas.

  Þennan draum ræddi ég auðvitað heima og svo við minn kæra vin Þorstein frá Hamri, en við ræddum gjarnan drauma þegar við hittumst.

  Mánuði síðar varð ég ólétt og það reyndist vera kærleiksbarnið Una Karítas sem var á leiðinni. Hún átti að koma 30. janúar en lét bíða eftir sér. Kom á föstudeginum 14. febrúar eftir gangsetningu.

  Á meðan ég beið eftir hríðum sat ég og heklaði teppi handa henni og það varð bara jafnstórt og hríðarnar leyfðu. Karlakór stóð fyrir utan gluggann allan daginn og söng Brennið þið vitar með miklum bravúr. Seinna kemst ég að því að það var verið að taka upp auglýsingu en þá fannst mér þetta fullkomlega eðlilegt. Það hefur alltaf einhver einstakur kraftur fylgt henni Unu minni.