Author: stellasoffia

Write a post about Dyngjuvegur 8

Á laugardagskvöldið fór ég í miklum kafaldsbyl í Gunnarshús. Steinunn okkar allra besta var þar með heljarinnar partý til þess að fanga bókmenntaverðlaununum. Áslaug skutlaði mér í snjónum og á tímabili sáum við ekki út úr augum. Ég mætti nú samt í gullskóm á 8 cm hælum til að fagna með drottningunni á bláa.

Það var margt skemmtilegt fólk í boðinu og auðvitað hin drottningin hún Vigdís Finnbogadóttir. Ég tók afar sæta mynd af þeim tveimur, Steinunni og Vigdísi.

Í dag spurði síminn minn hvort ég vildi ekki skrifa smá dagbókarfærslu um þetta udflugt mitt á Dyngjuveg 8 sem ég hef nú gert.

Er Sælan hætt?

Er nema von að maður spyrji. Er Sælan hætt? er spurning sem ég rakst á inni á samfélagsmiðinum Facebook. Spurningin var borin upp í grúppunni „Góða systir“ en þaðan fæ ég mikinn fróðleik um allt sem viðkemur konum, útliti og samskiptum. Eða nei annars, þarna fæ ég engan fróðleik þannig séð en það er stundum eitthvað skemmtilegt þarna.

Mér fannst spurningin vera góð en hún snýst um sólbaðsstofuna Sæluna. Spurningin leiddi hugann að því að á morgun, 5. febrúar, eru 45 dagar frá vetrarsólstöðum. Þá eru 90 dimmustu dagar ársins að baki og allt verður á uppleið héðan af. Þangað til sælan hættir og dag tekur að stytta að nýju.

Múffur með marsipani

Í snjónum í dag var mikið leikið úti. Krakkarnir fóru upp á snjóhólinn hérna við enda götunnar og veltust um en báru líka heitt vatn út í lítravís til að bræða hauginn sem var einmitt beint fyrir framan tröppurnar okkar. Engir smáklumpar og þurfti mikið vatn til að vinna á ferlíkinu.

Til að hlýja krökkunum bakaði ég múffur á meðan. Uppskriftin byggði á kaffimúffunum góðu en þar sem ég átti hvorki kaffijógúrt né súkkulaðispænir notaði ég jarðaberjasúrmjólk og marsipan sem bragðbæti. Verulega gómsætt og gott fyrir krakkana sem orkugjafi eftir allan leikinn í snjónum.

Fagrar og ljótar

Það voru eiginlega tvær útgáfur: ljótar og fínar eftir því hvaða form var notað. Sem betur fer brögðuðust þær alveg eins.

Afrek

Eftir Danmerkurferðina hef ég ekki orkað að fara í ræktina og svo hefur líka verið mjög mikið að gera. En nú stendur allt til bóta: Á morgun fer ég í laugardagstíma og engin miskunn í boði þar. Laugardagstímarnir eru erfiðastir og mjög skemmtilegir. Nú get ég ekki hætt við.

Reyndar fór ég í rennandi blauta November Project útileikfimi snemma í morgun. Það var úrhellisrigning! Ég er kannski ekki eins löt í ræktinni eins og ég hélt.

Tveir tímar á Grund

Afi er mun hressari núna en hann var um helgina. Ég var hjá Þórdísi og sá því ekki afa með eigin augum en Kristján sagði að hann hefði haldið að afi væri á útleið.

Í dag virtist afi hafa braggast. Vökvinn í æð hafði gert sitt gagn og hann var vakandi þegar ég kom. Við drukkum mikið kaffi og afi borðaði bæði súpu og fisk. Það var bara huggulegt að sitja þarna og mata hann. Og kaffið gerði honum mjög gott greinilega.

Stöðubrot með leyfi

Það var gaman að fara á Bessastaði í kvöld og samfagna með höfundum sem fengu Íslensku bókmenntaverðlaunin. Steinunn, Gunni og Rán voru okkar fólk í kvöld með bækurnar sínar í flokki skáldsagna og barna- og ungmennabóka.

Við Vala fórum samferða og vorum mættar vel tímanlega til að fá stæði sem næst húsinu. Fleiri höfðu fengið sömu hugmynd og við og þegar við komum keyrandi leit staðan ekki vel út. Öll stæði upptekin. Við ákváðum samt að keyra aðeins nær og sjá hvort það væri laust við endann. Jú, það var laust þar en svo reyndist það vera fyrir framan brunahana. Sem löghlýðnir ökumenn vorum við fljótar að bakka frá.

Við sátum svo um stund í bílnum og vorum hálflúpulegar þegar við sáum vakthafandi lögreglumann koma gangandi. Við skrúfum niður rúðuna og spurðumhvort hann vissi um hentugt stæði. Hann var fljótur að vísa okkur á fyrra stæði og gaf okkur sérstakt leyfi til þess að leggja ólöglega. Almennilegt það og ekki amalegt að fá stæði á besta stað í þessu vonda veðri.

Gult framundan

Ég hefði átt að fagna sólgleraugnafundinum meira. Það er nefnilega komin ansi gul viðvörun fyrir morgundaginn og þá er ég ekki að tala um þessa stóru gulu heldur veðurviðvörun.

Það er spáð miklu snjófjúki og engu skyggni. Ég ætla að vinna heima eftir hádegið því ég nenni engan veginn að sitja föst í umferðarhnút á litla rafmagnsbílnum mínum. Svo erum við líka að bíða eftir hörðum jarðskjálfta í Brennisteinsfjöllum, eldgosi á Reykjanesi og ég veit ekki hvað og hvað.

Vonandi lagast þetta með hækkandi sól.

Fundin sólgleraugu

Bestu sólgleraugun mín eru gleraugun sem virka eins og instagram filter. Sama hversu grátt og ömurlegt er úti, þá bæta þau hlýjum litatónum við umhverfið og virka þannig allan ársins hring. Á sólardögum kemur þessi mjúki litatónn líka fram í gegnum filterinn.

Tegundin heitir Tens og þau væri keypt í Eirbergi fyrir mörgum árum. Spöngin er fallega grænblá á litinn. Þetta eru langbestu og skemmtilegustu sólgleraugu sem ég hef átt.

Það var því mikil spæling hjá mér í fyrra þegar eg týndi sólgleraugunum í Danmörku. Það var einhver pirringur á milli okkar Þórdísar sem varð til þess að ég var annars hugar og ég hélt ég hefði lagt þau frá mér í matarverslun, Lidl í Helsinge, en ég fann þau amk hvergi og fór sólgleraugnalaus aftur heim til Íslands.

Nema hvað. Þegar Þórdís mín var á leið heim úr partýi á laugardagskvöldið fann ég þau aftur í Nettó innkaupapoka sem hún hafði notað undir gistidótið sitt. Og viti menn: daginn eftir var glaðasólskin í Danmörku.

Karisma: En fortælling om JFK

Skólasýningin hjá Þórdísi og félögum var einstaklega vel heppnuð. Stjarna kvöldsins var náttúrlega dóttir mín með replikkur, ellefu búningaskipti, söng og dansaði. Hún var langflottust.

Við Una sáum tvær uppfærslur, föstudags- og laugardagssýningarnar og værum mjög stoltar af okkar konu.