Við Una lögðum land undir fót í morgun og fórum í heimsókn til Þórdísar í Danmörku. Kristján keyrði okkur út á völl í vondri færð en allt gekk vel. Nokkrum klukkustundum síðar var skollinn á mikill snjóbylir og brautinni var lokað.
Nú erum við mættar til Helsinge og það hefur rignt heil ósköp en spáin fyrir helgina er góð. Við erum búnar að versla í matinn fyrir Þórdísi og erum að elda kvöldmatinn fyrir leikkonuna.
Afmælisdagurinn var dásamlegur og sérstakur. Gunni benti mér á að við Kristján ættum bæði prímtöluafmæli í þetta skiptið, hann 47 og ég 43, og að næsta prímtöluafmæli yrði ekki fyrr en við 67/71 árs afmælið. Það mun vera árið 2048.
Fjögurra ára: indíánabúningur og sígarettupakki á borðinu
Morgunmatur í rúmið (kaffi og blóðappelsínur), beyglur með sultu og söngur og svo afmælislunch á Hosiló með Áslaugu. Við fengum freyðivín og þykkvalúru. Hvorutveggja dásamlegt.
Svo fór ég á styrkveitingu Reykjavíkurborgar, Bókmenntahátíð fær þriggja ára samstarfssamning við borgina sem er frábært og róandi fyrir mig.
Þegar dagskránni lauk labbaði ég í snjókomunni á Grund og spjallaði við mömmu og pabba á leiðinni. Ég talaði svo mikið að ég gekk framhjá Grund. Þurfti að snúa við og labba til baka og á meðan kyngdi niður snjó.
Alltaf ljúft að heimsækja afa og við getum rætt alla hluti. Það fer vel um hann á Grund en hann er orðinn ansi lúinn og liggur mest fyrir. Við drukkum kaffi og ræddum málin.
Þegar ég kom til baka í vinnuna var allt á bólakafi í snjó og rafmagnið farið líka af stórum hluta bæjarins. Þessi dagur hafði einmitt hafist á gulri viðvörun, fjúkandi trampólínum, þrumum og eldingum. Aldrei rólegt í kringum mig.
Ég á afmæli á morgun og er alveg til í það. Venjulega er ég ekki mikið afmælisbarn, fæ oft afmælisblús vegna óuppfylltra væntinga, en eftir að væntingarnar fóru niður í núll hef ég gaman að þessu.
Það er líka gaman að eiga afmæli á tímum samfélagsmiðla, það toppar ekkert afmæliskveðjurnar á Facebook-veggnum.
Árið sem ég var 42 ára var frábært og ég fór einmitt mjög peppuð inn í það og árið reyndist verða 365 dagar af góðum ákvörðunum. Stærstu póstarnir voru atvinnutilboð frá útlöndum sem ekki hverjum sem er í mínum geira býðst og svo annað tilboð á Íslandi sem var mjög spennandi og ég sagði upp starfinu í þáverandi vinnunni. Svo er alls konar skemmtun að baki líka og sem betur fer man ég bara það góða.
Ég hafði ekki endilega svörin á reiðum höndum árið sem ég var 42 ára en ég kunni að spyrja spurninga og finna réttu svörin. Heilt yfir mjög ánægð. Komandi ár verður líka gott.
Ég fór loksins á körfuboltaæfingu í kvöld eftir að hafa verið í pásu síðan ég var ófrísk af Baldri Atla. Liðið Sorrí, Not Sorrí hefur æft af kappi síðastliðin ár … Halda áfram að lesa: Sorrí, Not Sorrí
Það er ekkert betra en morgunkaffið. Ég leiðrétti mig: Það jafnast ekkert á við fyrsta sopann af fyrsta kaffibolla dagsins, einkum ef hans er notið undir heitri sænginni.
Þetta var einmitt niðurstaðan í morgun, eins og flesta aðra morgna. Fyrsti kaffisopinn gerir jafnvel þriðja mánudag janúarmánaðar að góðum degi en mér skilst að sá dagur sé alla jafna erfiðasti dagur ársins (eða var það leiðinlegasti?). Allaveganna var dagurinn frábær að mörgu leyti og á skalanum einn til tíu fékk hann níu (eða þúsund milljón eins og sonur minn mundi segja).
Það hefur verið ansi kalt síðustu daga en kuldinn breytir engu um ísát. Fengum nefnilega lánaða ísvél frá Ernu og höfum verið dugleg að gera ístilraunir um helgina. Fyrst þurfti … Halda áfram að lesa: Árið byrjar á ísáti
Kristján á afmæli í dag og samkvæmt öllum reglum heimilisins fékk hann kaffi í rúmið, ásamt afmælissöng og pakka. Baldur harðneitaði að byrja á laginu Nú hátíð halda skal og heimtaði að það yrði byrjað á þessu venjulega. Það kom ekki að sök, það er betra að hafa unga manninn sáttan í byrjun dags.
Risaeðlupönnukökur
Baldur og Una hjálpuðu mér að steikja pönnukökur handa afmælisbarninu í morgunmat og svo bjuggum við öll saman til tvo stóra snjókarla úti í garð og kveiktum bál.
Í kvöld erum við á leið í nýársboð Sveppanna. Þetta er árlegt boð í matarklúbbnum, haldið yfirleitt fyrstu vikuna í janúar, en af ýmsum ástæðum frestaðist það í ár. Það … Halda áfram að lesa: Áramótaheitin, nýársboð
Sjúkraþjálfarinn minnn sagði mér að sennilega hefði ég tognað þar sem vöðvinn festist við setbeinið (mjög lýsandi heiti). Ég á að gera æfingar og er nú byrjuð á þeim. Misdugleg auðvitað, en gengur alveg. Ég á næst tíma eftir tvær vikur. Kannski verður þetta liðið hjá um það leyti.
Nema hvað. Ný meiðsl hafa látið á sér kræla. Að þessu sinni er það ökklinn vinstra megin og ég er stokkbólgin. Þetta hljóta að vera áhrif frá einhverju hoppi í gær en þá fór ég á tvær æfingar (November Project um morguninn, Kraftur í Afreki um kvöldið). Ég hjólaði líka til og frá vinnu í frostinu.
Nú ber ég á mig Voltaren og bryð íbúfen eins og ég fái borgað fyrir það. Er á batavegi, vonandi. Kannski er þetta aldurinn.
Áslaug keppti í sinni fyrstu Gettu betur keppni í kvöld. Við foreldrarnir vorum miður okkar af stressi og kvíða og enduðum á því að hlusta á keppnina inni í eldhúsi sitjandi undir borði með hjartslátt og héldum fyrir augun.
MR keppti við FÁ sem var með gott lið. MR var með 21 stig eftir hraðaspurningar en FÁ 15. Áslaug svaraði mörgum spurningum en hefði átt að fá rétt fyrir að segja segja Chanel no. 5 (en ekki bara Chanel) þegar spurningin var í hverju Marilyn Monroe hefði sofið í.
Besta svarið í keppninni var frá FÁ þegar þau voru að svara spurningunni um esperanto. Þau þekktu esperanto og byrjuðu að svara áður en búið var að bera upp spurninguna. Sögðu svo að Antontio Banderas léki í bíómyndinni Esperanto þegar hið rétta var auðvitað að hann lék í bíómyndinni Desperado. Svona er nú hægt að víxla orðum. Þetta var bráðfyndið. Það var spurt um esperanto en líka um nafn rithöfundarins Þórbergs Þórðarsonar. Þessu gátu MR-ingar svarað.
Skemmtileg keppni og verulega góðar spurninar. Bæði liðin stóðu sig vel en MR endaði á því að fá 43 stig á móti 17. Næst er það sjónvarpið. Það verður nú ekki auðveldara fyrir okkur Kristján.