Author: stellasoffia

Velkomin á Grund og lokast inni í lyftu

Afi fékk loksins flutning á Grund. Nú erum við komin úr kartöflugeymslunni Vífilstöðum og yfir á biðdeildina á Grund. Þetta gekk ekki þrautalaust fyrir sig, en það er kominn meira en mánuður síðan ég óskaði eftir þessum breytingum. Jafnvel tveir, tíminn líður svo hratt. Rýming Grindavíkur hafði áhrif, nú eru Grindvíkingar í ýmsum plássum á Grund og þess vegna meðal annars hefur þetta gengið hægt.

Nýi staðurinn er mun heimilislegri en Vífilstaðir. Þetta er rekið eins og heimili, hurðin er ólæst og afi má koma og fara að vild. Ekki það að hann sé eitthvað á ferðinni, hann kemst lítið eins og staðan er núna. En það er líka sundlaug og svo ólst hann upp í næsta húsi þannig að segja má að hann sé á heimavelli. Megas er borðfélagi hans.

Við Baldur fórum í heimsókn í gær og það gekk vel, nema Baldri dauðleiddist. Hann endaði á að stinga mig af og festast inni í lyftunni. Það var ekki skemmtileg reynsla og hann mun vonandi ekki taka upp á því að stinga af aftur í bráð.

Handbolti

Við stóðum á öndinni í kvöld yfir leik Færeyinga og Norðmanna. Ótrúlega jafn og spennandi leikur og auðvitað héldum við með Færeyingum.

Maður leiksins var Elías á Skipagøtu sem átti stórkostlegan leik allan leikinn. Magnaðar sendingar og svo ótrúleg jöfnun út vítaspyrnu á síðustu sekúndunum eftir að hafa verið þremur mörkum undir þegar klukkan stóð í 58,30 sek.

Elías á Skipagøtu

Þetta var skemmtilegt og frábær sigur Færeyinga á Norðmönnum, 26-26.

Sítróna

Þessi fallega sítróna var eftirréttur kvöldsins. Hún er ansi raunveruleg en þetta er samt bara búningur sem lítur út fyrir að vera sítróna. Hjúpuð hvítu súkkulaði, sem er litað gult, og inni í henni er sítróna og mynta og auðvitað þessi rjómabúðingur.

Lísa tók þessa mynd

Dýrðina er hægt að smakka á Oto á Hverfisgötunni en þangað fórum við í kvöld með Kjartani og Lísu. Fengum æðislegan mat; sólkola, hörpudisk, brioche og reykt tófú svo eitthvað sé nefnt. Þjónustan þarna líka frábær.

Keppnisstemning

Síðustu daga hefur spurningalið MR æft stíft í Blönduhlíðinni. Þau keppa við útvarpið í fyrstu umferð og standa sig vel.

Þetta hafa verið langar kvöldstundir. Krakkarnir mæta klukkan sex og fara ekki heim fyrr en á miðnætti. Fyrsta keppnin hjá þeim er 17. janúar. Við erum verulega spennt.

Lyftingaæfing

Mætti á lyftingaæfingu í dag með nýju vafningana um úlnliðina. Allt annað líf og átakið réttara. Sló nú samt engin met í bekknum, var rétt að slefa upp í 32 kg. En þá er nóg pláss fyrir bætingu.

Um daginn held ég að eitthvað hafi slitnað eða amk tognað í aftanlærisvöðvanum hægra megin. Ég ræddi það við þjálfarann sem leyfði mér að vera súkkulaðikleina í hnébeygju um og endaði svo á því aflýsa goblet squattinu fyrir alla.

Ég var annars hugar á æfingunni því klukkan 19 opnaði fyrir skráningu í ferðina um Kjalveg hinn forna. Við verðum þar í 20 manna hópi í sumar. Við Kristján náðum að skrá okkur þrátt fyrir að vera á æfingu og getum byrjað að láta okkur hlakka til.

Sundlaugar, topplisti

Besta sundlaugin er auðvitað Kópvogslaugin. Stutt að fara, góðir klefar og sturtur, rennibrautir og gott barnasvæði. Góðir heitir pottar og gufa. Góð stemning hjá alls konar fólki.

Breiðholtslaugin er næstbest, enda snyrtileg og skemmtileg og með fjölbreyttri afþreyingu. Ókostir er World Class tengingin.

Í þriðja sæti er laugin í Úlfarsárdal. Frábær laug og æðislegir klefar en sleipt gólf í sturtunum dregur hana örlítið niður. Baldur fékk myndarlega kúlu á kinnina á dögunum eftir að hafa runnið í umræddum sturtuklefa.

Ný kaffikanna, nýtt líf

Upp úr einum jólapakkanna kom kaffikanna sem hentar vel á spanhellur. Hingað til höfum við ekki viljað fjárfesta í nýrri könnu, eigum heilan helling af Bialetti sem eru brúklegar á spanhellur ef sett er millistykki. Við keyptum millistykkið sem hefur dugað vel og kostaði lítið. Það passar á allar könnurnar.

Nýja kannan hefur reynst aldeilis vel. Nú fer hún beint á helluna, tólf bolla gímald sem dugir vel fyrir tvo til þrjá á hverjum morgni. En helsti munurinn er tíminn. Nýja kannan er svo snögg að ég næ varla að skreppa að pissa áður en allt byrjar að bullsjóða á könnunni. Og svo er kaffið afar bragðgott og ég hlakka til þess sérhvert kvöld að vakna að morgni og sötra kaffið góða.

Lítill fiskur í stórfiskaleik

Eftir Afreks-æfingu í morgun mættum við galvösk á Hlíðarenda. Baldur var í búningnum og mjög peppaður.

Æfingin byrjaði aðeins brösuglega. Upphitun fólst nefnilega í stórfiskaleik og minn maður kunni alls ekki leikinn. Það féllu ófá tár í þessum stórfiskaleik.

Baldur Atli lét hins vegar sært stoltið ekki stöðva sig og eftir smávegis dekstur í upphafi æfingar náði ungi handboltamaðurinn sér á strik.