Nú munaði mjóu. Þegar 114 km eru eftir til Lande Basse kom í ljós að tankurinn var orðinn tómur.
Við vorum reyndar á bensínstöðinni þegar þetta kom í ljós en við tókum sénsinn og keyrðum 20 km til viðbótar á næstu stöð því það var engin leið að komast aftur á dælurnar nema keyra á móti umferð.
Þetta voru æsilegir 20 km en þetta hafðist. Nú er stutt eftir og tankurinn fullur.
Nú, mitt í öllum framkvæmdum, erum við á leið til Bretagne í páskafrí. Fljúgum til Parísar í kvöld og ætlum að gista þar í nótt. Á morgun leigjum við bíl og keyrum á skagann, þangað sem Þórdís okkar er komin nú þegar í páskafríið sitt.
Í morgun komu Gestur og Bjarnþór og við löbbuðum í gegnum næstu skref með þeim. Infrarauði saunaklefinn er á framkvæmdaplani!
Þá er keppninni lokið. MH sigraði MR í æsispennandi úrslitakeppni í gær. Okkar allra besta Áslaug stóð sig frábærlega og var okkur og sjálfri sér til sóma.
Það er sárt að tapa en næsta verkefni bíður núna ungu konunnar, nefnilega stúdentsprófin.
Landslið pípara var statt hérna í dag og það var heljarinnar hamagangur. Þeir enduðu á að taka út alla pottjárnsofnana niðri, saga þá í sundur og bera þá út.
Ekki nóg með að ofnarnir voru teknir úr húsinu, heldur voru þeir líka fjarlægðir af lóð og settir í förgun.
Það kemur í dag, vorið, enda vorjafndægur í dag. Loksins, loksins sagði einhver einhvern tímann. Á mínu heimili hefur verið beðið lengi eftir þessum degi.
Það var greinilegt í morgun þegar ég fór í November Project uppi í Háskóla að vorið var á leiðinni. Á meðan ég hljóp um háskólasvæðið og gerði mínar hefðbundnu æfingar (framstig, ladybug og allt í einni ferð) birti hratt og örugglega og áður en við vissum af var orðið albjart. Tröppurnar voru líka í því ástandi að hægt var að hlaupa þær upp og niður án þess að eiga á hættu að detta.
Veðrið var svo ljúft í morgunsárið að sumir fóru úr jökkunum á æfingunni og voru ýmist á peysu eða bol. Ég var ekki í þeim hópi en það styttist í það hjá mér. Ég finn það á öllu.
Berserkir komu hingað í morgun og byrjuðu að brjóta og bramla. Nú verður ekki aftur snúið.
Skorsteinninn er farinn úr þvottahúsinu og það er komið nýtt dyraop í herbergið hennar Þórdísar. Allt lítur þetta vel út en það er auðvitað mikið uppbyggingarstarf framundan.
Nú þurfum við að fletta flísunum af þvottahúsgólfinu og á morgun koma píparar að taka þá ofna sem eftir eru.
Parketið er á útleið og panellinn sömuleiðis. Þetta er allt að koma. Eða reyndar að fara.
Bókamessan í London hefst á morgun og við hjá RLA erum auðvitað þar. Ég flaug til London í morgun og hef nú eytt deginum hér í borginni við að stilla upp í Olympia.
Til þess að komast inn í sýningarhöllina, Olympia, þurfti ég að fjárfesta í forláta gulu vesti. Sýningarsvæðið er framkvæmdasvæði og enginn má fara þangað inn nema í svona fínu vesti. Ég var með prjónana með mér því mér datt í hug að mögulega þyrfti ég að bíða eftir einhverju. Það reyndist auðvitað vera þannig og ég sat og prjónaði í gula vestinu mínu.
Vorið er annars komið aðeins lengra hér í borginni en heima. Kirsuberjablómstur eru á trjánum og alls konar önnur tré blómstra, sum þeirra ilma meira að segja. Það er samt frekar grátt og á morgun er spáð úrhellisrigningu. Það er allt í góðu því ég ætla að vera inni á messu alla daga.
Það er ekki fyrr kominn mars fyrr en rauðhærði fjölskyldumeðlimurinn, Baldur Atli, er kominn með ógrynni af freknum. Í fyrra tók það allt sumarið að fá nokkrar freknur en nú er þetta strax komið í gang.
Það er ekki ólíklegt að litli snáðinn verði eins og Pétur afi sinn, rauðhærður og mjööög freknóttur. Sjálf fæ ég mikið af freknum, en ég byrjaði ekki að fá þær fyrr en á unglingsárum. Una er spæld að fá ekki freknur en hún verður súkkulaðibrún á núll einni.
Bjarnþór rafvirki kom áðan og boraði í vegginn á milli Harry Potter-geymslunnar og þvottahússins. Svo leiddi hann alla nýju kaplana úr nýja rörinu, sem Veitur lögðu í síðustu viku, og tengdi síðan allt snyrtilega í nýju rafmagnstöfluna.
Nýja taflan er að vísu ekki mjög ný. Hún hefur verið tilbúin í fimm ár og beðið eftir tengingunni. Hlökkum til að geta hlaðið rafmagnsbíla og notað allar hellurnar á spanhelluborðinu í einu!
Það eru strembnir tímar framundan í framkvæmdum en líka skemmtilegir.
Vorið er komið í Reykjavík þegar Café París setur út stólana og borðin við Austurvöll. Líka þegar hjólabrettastrákrnir renna niður Bankastrætið og inn Austurstrætið á leið sinni á Ingólfstorg.
Og vorið er líka komið þegar kona með skærbleikan trefil og rauðan varalit hjólar niður Skólavörðustíginn og 30 kínverskir ferðamenn taka mynd af henni á hjólinu.