Flokkur: Uncategorized

Norrænar bókmenntir í Japan

Það bættist ný reynsla í bankann í gær, föstudag, þegar ég hélt fyrirlestur við háskólann í Tokyo. Hélt hann reyndar bara á Teams en sá næsti verður sannarlega á staðnum. í Japan var klukkan orðin fjögur síðdegis en hjá mér var hún sjö að morgni og dagurinn rétt að byrja. Það voru sjötíu nemendur sem hlustuðu, þeir hafa sennilega verið orðnir þreyttir eftir vikuna en ég var hin hressasta í morgunsárinu.

Pínu óheppilegt að þetta var einmitt daginn sem Stekkjastaur kom til byggða. Óánægjan meðal barmanna með skógjafirnar (rafmagnstannbursti og hárteygjur) var gríðarleg og Baldur mætti á nærbuxunum í fyrirlesturinn til að láta í ljós vandlætingu sína á tannburstanum.

Ég fór á hundavaði yfir bókmenntasöguna og nefndi höfunda frá öllum Norðurlöndum sem hafa komið út á japönsku, bæði kanónur og glæpasagnahöfunda.

Vegna túlkunar var tíminn af smám skornum skammti svo ég náði ekki að fara yfir síðustu glæruna. Það dró ég fram óvæntan samanburð á japönskum nútímabókmenntum sem ferðast víða um heim þessa dagana og á íslenskri modern Classic.

Ég er aðallega að hugsa um Svövu og Ástu kannski, en það er svo magnað að skynja þennan domestic horror í báðum heimum með fimmtíu ára millibili. Kvennabarátta í Japan er auðvitað miklu seinna a ferð en á Íslandi og mér þóttu þessi líkindi merkileg uppgötvun.

Dularfullt atvik um nótt

Klukkan fimm mínútur yfir tólf a miðnætti í dag, 14. ágúst, byrjaði vekjaraklukkan hans afa að hringja. Það væri svosem ekki í frásögur færandi nema af því að í dag er einmitt afmælisdagurinn hans afa og svo hitt, að klukkan hefur staðið hér síðan hann dó og hefur aldrei hringt áður.

Þetta var yndisleg kveðja frá afa og við heimsóttum hann í kirkjugarðinn í tilefni dagsins.

Öll börnin okkar heima

Við Áslaug og Una keyrðum suður í Keflavík í nótt sem leið og náðum í Þórdísi og Baldur. Þau komu með Transavia frá Orly og lentu um eittleytið.

Ferðin gekk afar vel hjá þeim og Baldur svaf víst bara hálftíma alla ferðina. Í bílnum á leiðinni heim talaði Baldur viðstöðulaust og það gerði hann víst líka á ferðalaginu, meira að segja á meðan hann svaf.

Fimm hlutir + 1

Það eru fimm hlutir sem mig langar að gera en get ekki eða má ekki:

  1. Fara í sund
  2. Fara í sjósund
  3. Fara út að hjóla
  4. Fara í afrek
  5. Fara út að hlaupa

En svo er eitt sem ég má frá og með i dag: fara í gufu! Fyrsta gufan í þrjár vikur. Elska það.

Home Alone

Það eru merkilegir tímar hér í B28 á svo margan hátt. Þetta sumarið erum við fá heima. Una fór til Víetnam í byrjun sumars, Kristján fór til Palo Alto og svo fór Baldur til Frakklands og líka Þórdís til Danmerkur. Öll eru þau í burtu í mislangan tíma.

Síðustu þrjá daga höfum við Áslaug verið einar heima. Það hefur ekki gerst síðan við bjuggum í Kaupmannahöfn. Kristján fór til Kína vorið eða sumarið 2006 og við mæðgur vorum einar í þrjár vikur. Ég man að mér þótti það mjög erfiður tími og lengi að líða. Áslaug var ungabarn, enn á brjósti og einhvern veginn ekkert að gera. Engar streymisveitur og við áttum ekki sjónvarp. Rás 1 bjargaði mér held ég.

En það er nú eitthvað annað uppi á teningnum núna þegar við erum einar heima, búið að vera yndislegt. Elduðum góðan mat, prjónuðum, fórum í göngutúra, fórum út að borða og í bíó með Ernu og höfðum það almennt mjög næs.

Í nótt var ég ein heima í fyrsta skiptið í hundrað ár. Ég man eftir einu skipti í Eskihlíð þegar Áslaug og Þórdís gistu hjá vinkonu en annars hefur þetta varla gerst. Ég svaf vel og vaknaði þegar Ninja vildi fá að borða (Snúður var auðvitað ekki heima í nótt).

Una er á heimleið í þessum töluðu orðum. Er í millilendingu í München og svo lendir hún síðdegis í Keflavík. Við Áslaug ætlum að taka vel á móti snúllunni okkar.

Una á heimleið frá Víetnam

Það er komið að því. Ferðalangurinn okkar og ofurhuginn Una er lögð af stað yfir hálfan hnöttinn til að koma heim til mömmu sinnar.

Flugið frá Hanoi lagði af stað kl 16 að íslenskum tíma (23 í Víetnam) og það mun taka um það bil 24 klst að komast heim með stoppum. Fyrsti leggurinn er rúmir tíu tímar en þá fer hún til Istanbúl.

Klukkan sextán á morgun, laugardag, verður hún hjá okkur! Get ekki beðið.

Engin aflögunarmerki

Ég er eins og eftir eldgos. Það eru engin aflögunarmerki en samt er allt í rúst. Í nótt fór af stað tólfta eldgosið síðan 2021 og eftir það eru fréttir í fjölmiðlum dagsins um engin aflögunarmerki. það eru einmitt engin aflögunarmerki á mínu broti en allt sem ég gerði á sex vikum hefði getað haft áhrif.

Það er hægt að gera ýmislegt með lærbrot. Til dæmis:

  • Fara í körfubolta
  • Spila pógó
  • Hjóla (án þess að stíga af hjólinu)
  • Ryksuga stigana (frá fyrstu upp á fjórðu)
  • Skúra allar hæðir
  • Halda garðveislu fyrir alla fjölskylduna
  • Halda aðalfund Bókmenntahátíðar með stjórn og mökum
  • Elda fiskisúpu fyrir téðan fund
  • Fara á tónleika
  • Fara á leikskólaútskrift
  • Halda árshátíð í vinnunni
  • Dansa á árshátíð í vinnunni
  • Taka til eftir árshàtíðina
  • Og svo ótal margt annað

Nú er ég alveg að drepast. Læknirinn sagði mér að hafa samband ef ég fyndi einkenni frá nára en hafa samband við hvern? Ég kemst vonandi að því á morgun.

Súrdeig

Ég er að myndast við að útbúa súrdeigsmóður með mjög misjöfnum árangri. Internetið býður upp á hafsjó leiðbeininga og kaótísk eins og ég er, þá fylgi ég þeim öllum í bland. Mögulega misheppnast þetta þess vegna.

Nú er ég á þriðja degi með nýja móður og einbeiti mér að því að fylgja sömu leiðbeiningum. Eru komin með áminningu í símann, daglega kl 12:15, um að tékka á súrnum.

Kolbeinn og Tinni

Þeir eru tveir í gangi: Tinni (venjulegur, búinn til út hvítu hveiti) og Kolbeinn (áferðarmeiri, úr rúgmjöli). Það verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni eða amk næstu vikuna.

Bongóblíða

Veðrið lék svo sannarlega við okkur mæðgur í dag. Við lágum úti í Hlíðaskjóli, lásum og úðuðu í okkur svalandi melónu.

Ég hef aldrei upplifað viðlíka hita hérna heima en hitinn i Reykjavík fór yfir 20 gráðurnar.

Ég fór í stuttan labbitúr í hitanum til að kæla mig aðeins og heyrði í Sollu vinkonu minni til að hlera hvernig hefði gengið með 20 mínútum á Snæfelli.

Tannsi

Ég dýrka tannlækninn minn. Hún er svo ánægð með mig og tennurnar mínar og talar bara við mig á uppbyggjandi hátt. En það er líka alveg innistæða fyrir því hjá mér því ég hef verið einstaklega dugleg við tannumhirðuna upp á síðkastið.

Hrós dagsins fær semsagt frábæri tannlæknirinn minn.