Afi fékk loksins flutning á Grund. Nú erum við komin úr kartöflugeymslunni Vífilstöðum og yfir á biðdeildina á Grund. Þetta gekk ekki þrautalaust fyrir sig, en það er kominn meira en mánuður síðan ég óskaði eftir þessum breytingum. Jafnvel tveir, tíminn líður svo hratt. Rýming Grindavíkur hafði áhrif, nú eru Grindvíkingar í ýmsum plássum á Grund og þess vegna meðal annars hefur þetta gengið hægt.
Nýi staðurinn er mun heimilislegri en Vífilstaðir. Þetta er rekið eins og heimili, hurðin er ólæst og afi má koma og fara að vild. Ekki það að hann sé eitthvað á ferðinni, hann kemst lítið eins og staðan er núna. En það er líka sundlaug og svo ólst hann upp í næsta húsi þannig að segja má að hann sé á heimavelli. Megas er borðfélagi hans.
Við Baldur fórum í heimsókn í gær og það gekk vel, nema Baldri dauðleiddist. Hann endaði á að stinga mig af og festast inni í lyftunni. Það var ekki skemmtileg reynsla og hann mun vonandi ekki taka upp á því að stinga af aftur í bráð.



