Fyrir nokkrum árum rakst ég á uppskrift að forláta legghlífum. Þeta hefur sennilega verið sumarið 2015 eða 2016, ég var nýkomin úr Kerlingafjöllum og mig vantaði legghlífar fyrir næstu ferð sem yrði farin árið eftir. Ég prjónaði og prjónaði, allt gekk vel og fyrr en varði kláraði ég rauða legghlíf sem var með stroffi í brúnu (sauðalitur).
Svo leið og beið og ég týndi uppskriftinni og alltaf átti ég bara eina legghlíf. Ég gerði stundum tilraun til að finna uppskriftina en allt kom fyrir ekki. Legghlífin var einmana ofan í prjónakörfu og beið eftir að fá hinn helminginn sinn. Á tímabili var ég farin að velta fyrir mér að vera með ósamstæðar legghlífar, sem hefði auðvitað verið fullkomlega glatað.
Um daginn var ég svo að taka til í bookmarks-listanum í vinnutölvunni og hvað gerist? Ég hafði þarna um árið sett prjónauppskriftina sem bookmark og þarna beið hún eftir mér mörgum árum seinna. Ég á garnið og prjónana og ég held svei mér þá að þegar ég geng Kjalveg hinn forna að ég verði í glæsilegum heimaprjónuðum og samstæðum legghlífum.