Menningarlegar á sunnudegi

Við skruppum á Helsingör í dag og löbbuðum í kringum kastalann. Fengum hressandi sjávarloftið yfir okkur, horfðum yfir til Svíþjóðar og ræddum málin. Höfðum keyrt úteftir og sungið hástöfum í bílnum alla leiðina. Það var mjög skemmtileg bílferð.

Því næst lá leiðin á Lousisina. Við lögðum í nákvæmlega sama bílastæði og síðast, svona erum við nú alltaf vanafastar við mæðgurnar. Við sáum mjög fallega sýningu eftir listakonuna Firelei Báez en hún er frá dóminíkanska lýðveldinu og þetta er hennar fyrsta einkasýning í Evrópu. Firelei er fædd sama ár og ég og ég fann mjög sterka tengingu við verkin hennar. Hún málar í sterkum litum ofan á kort og teikningar frá nýlendutímanum og verkin hennar eru bæði agnarsmá og risastór.

Á leið inn í salinn ræddum við mæðgur uppáhaldslitina okkar og við nefndum allar gulan og bleikan. Báðir þessir litir voru mjög áberandi á sýningunni og ég endaði á því að kaupa póster til að taka með heim.

Ég bauð líka stelpunum í lunch á veitingastaðnum. Við fengum auðvitað afbragðsmat eins og alltaf og stelpunum fannst notalegt að sitja og horfa á fólkið. Á bakaleiðinni var enn eitt carpool karaoke en Una steinsofnaði. Við Þórdís erum líka dálítið lúnar og njótum þess núna að slaka á í síðdegissólinni.

Færðu inn athugasemd