Kuldakast

Það hefur verið ansi kalt síðustu daga og nú í morgun gafst Renaultinn minn pínulítið upp. Í mælaborðinu stendur: DANGER. ELECTRIC FAILURE. Þrátt fyrir þessa mjög sterku viðvörun keyri ég áfram eins og ekkert sé. Eða þannig.

Bíllinn nær ekki nema 30 km hraða á meðan þetta ástand varir. Ég fór mikla krókaleið til vinnu í morgun til að sneiða hjá umferðargötum en gat það eiginlega ekki á bakaleiðinni. Keyrði Hringbrautina með hazardljósin á og saknaði hinnar löturhægu umferðar sem er venjulega klukkan fjögur. Ég var á ferðinni klukkan fimm í dag og þá var umferðin að mestu leyti frá. Bílarnir þeystu framúr mér og ég vildi óska að ég hefði haft hatt til að skýla mér á bakvið.

Sem tilraun til að laga þetta hef ég sett bílinn í hleðslu. Það er eitthvað mjög skrítið í gangi því frostið minnkaði nú um hádegið en samt hélt bíllinn áfram að væla. Rafmagnsbústið núna þaggar vonandi niðri í honum.

Færðu inn athugasemd