Nú verður ekki aftur snúið. Teningunum hefur verið kastað og við erum lögð af stað yfir Rúbikon-fljótið. Fyrir helgi sá ég að stelpa sem ég kannast við óskaði eftir eldhúsinnréttingu og ég sá mér auðvitað leik á borði og bauð henni innréttinguna sem er í kjallaranum, sem hún þáði.
Í dag, sunnudag, komu svo bræður hennar tveir að skrúfa allt draslið niður. Þeir voru fílefldir og kölluðu ekki allt ömmu sína. Það var smá vesen með vatnsleiðslur og rafmagn en allt fór þetta vel og á þremur tímum var allt farið. Eftir standa berir veggir og óhreinar flísar.
Nú þegar innréttingin er farin er ljóst að ekki verður hætt við úr þessu. Okkar bíður mikil vinna að hreinsa flísar af veggjum og gólfum, pússa veggi, laga rafmagn, leggja gólf, bora gat á vegg og steypa fyrir hurðarop. Þetta verður nýtt herbergi fyrir Þórdísi og ég held það verði mjög fallegt þarna niðri.
Á sama tíma og við stóðum í þessu var Kristján ekki heima og ég var að undirbúa bekkjarafmæli fyrir Unu. Steikti 40 vöfflur, bakaði skúffuköku og skreytti, gerði gulrótarköku og krem, bakaði kryddbrauð og lagði á borð. Mér leið svolítið eins og blöndu af Ollu ömmu og Stellu Löve, sem eru einmitt tvær konur sem ég held mikið upp á. Og svo var auðvitað konudagurinn líka í dag og ég hafði fengið fallega túlípana frá krökkunum í tilefni dagsins.