Í morgun var Baldur Atli alveg viss um að það væri komið vor og í krafti þeirrar sannfæringar fór hann á hlaupahjóli í leikskólann. Hann hafði auðvitað alveg rétt fyrir sér, vorið er komið eins og margoft hefur komið fram á þessum miðli og fuglarnir voru á útopnu í morgun.
Hjólahjálmurinn sem drengurinn fékk fyrir tveimur árum er orðinn of lítill og það er klárlega kominn tími á nýjan hjálm. Við redduðum okkur í morgun með því a taka gamlan hjálm af Unu traustataki (takk,Lions!) en það er orðið ljóst hver sumardagsgjöfin verður í ár.
En svo var það málið með að fara á hlaupahjólinu alla leiðina í leikskólann. Ég endaði á því að halda á hjólinu nánast alla leiðina en það rann upp fyrir mér á leiðinni að það er langt síðan að ég hef þurft að halda á Baldri í skólann. Hann verður sífellt duglegri og ólatari við að ganga.

En það var annað sem var pínu fullorðins í morgun. Baldur fór nefnilega á léttum sumarjakka í leikskólann og slapp þar með við þykku úlpuna, vegna þess hve vorlegt var úti. Og jakkinn var ekki af lakari gerðinni því allar systur hans höfðu átt jakkann á undan Baldri. Áslaug Edda fjögurra ára, Þórdís Ólöf fjögurra ára, Una Karítas fjögurra ára og loks Baldur Atli fjögurra ára. Endingin sannarlega góð og góður jakki sem PG gaf Áslaugu Eddu á því herrans ári 2011.