Bókasýning í London framundan

Bókamessan í London hefst á morgun og við hjá RLA erum auðvitað þar. Ég flaug til London í morgun og hef nú eytt deginum hér í borginni við að stilla upp í Olympia.

Til þess að komast inn í sýningarhöllina, Olympia, þurfti ég að fjárfesta í forláta gulu vesti. Sýningarsvæðið er framkvæmdasvæði og enginn má fara þangað inn nema í svona fínu vesti. Ég var með prjónana með mér því mér datt í hug að mögulega þyrfti ég að bíða eftir einhverju. Það reyndist auðvitað vera þannig og ég sat og prjónaði í gula vestinu mínu.

Vorið er annars komið aðeins lengra hér í borginni en heima. Kirsuberjablómstur eru á trjánum og alls konar önnur tré blómstra, sum þeirra ilma meira að segja. Það er samt frekar grátt og á morgun er spáð úrhellisrigningu. Það er allt í góðu því ég ætla að vera inni á messu alla daga.

Færðu inn athugasemd