Heimsókn í sjóræningjabæ

Við nýttum góða veðrið í dag til þess að heimsækja St. Malo. Það er mjög fallegur bær hérna fyrir norðan okkur, liggur að sjó og er umkringdur borgarmúrum. Gamli bærinn liggur intra muros.

Við löbbuðum út í eyju og þurftum að hraða okkur til baka til þess að ná yfir á þurru. Það flæddi mjög hratt að og það lokaðist fyrir stíginn út í eyjuna. Vörðurinn passaði að allt færi vel fram og að gestir næðu yfir eða biðu í eynni. Að vísu var ein kona sem fór úr buxunum og gekk yfir, vatnið náði henni upp á mið læri og þetta hefði getað farið illa, en hún náði yfir við illan leik og vörðurinn var sannarlega ekki ánægður.

Skrifað í sandinn, eyjan í baksýn

Um kvöldið snæddum við á creperíu sem var líka cidrólógía. Við fengum okkur galettu í aðalrétt, crepu í eftirrétt og auðvitað drakk ég cidru með.

Í St. Malo gerist hin dásamlega bók All the Light You Cannot See og samnefndir þættir eru teknir þarna. Gaman að koma í bæinn eftir að hafa lesið bókina. Ég hef reyndar bara horft á fyrsta þáttinn og varð fyrir smá vonbrigðum, en það er líkast til af því að bókin er svo góð.

Færðu inn athugasemd