Allt er samkvæmt áætlun. PG var búinn að ákveða hvernig allt ætti að vera; útförin og erfidrykkjan, og nú er því lokið. Allt var svo fallegt; tónlistin var gæsahúðartónlist og presturinn flottur. Þetta allt samkvæmt skipulagi okkar allra besta manns, sem var bílstjóri í eigin lífi fram yfir dauðadag. Pétur Guðfinnsson lést 22. apríl síðastliðinn og útförin var í Neskirkju í dag, 3. maí.
Í dag minnist ég fyrst og fremst allra gleðistundanna með þessum stórkostlega manni sem ég var svo heppin að fá að kalla afa, og seinna fékk hann nafnið tengdaafi og langafi. Hann var svo stór hluti af lífi okkar fjölskyldunnar að það verður aldrei samt eftir fráfall hans.
Jól og páskar, sunnudagar og laugardagar, miðvikudagshádegin okkar, þriðjudagssíðdegin, fimmtudagsmorgnar og fösudagskvöldin. Meira að segja mánudagarnir voru með Pétri afa. Við vorum alltaf saman. Og ef við vorum ekki saman, þá vorum við ýmist í símasambandi (símavinir eins og það hét einu sinni) eða að skiptast á skilaboðum í gegnum messenger.





















Þegar ég var lítil stelpa hélt ég að afi minn ynni við það að sækja blöðin. Ég var svo mikið hjá ömmu og afa á Þinghólsbraut og afi var alltaf að koma heim í hádeginu, með blöðin. Um helgar fór hann niður í sjónvarp og sagðist vera að sækja blöðin. Seinna fattaði ég að hann var vakinn og sofinn og yfir starfi sínu sem framkvæmdastjóri Sjónvarpsins en hann var samt aldrei sérstaklega hávær um það.
Þegar ég varð fullorðin var samband okkar einstaklega náið og við urðum trúnaðarvinir. Við ræddum saman um alla hluti, hann sagði mér frá barnæsku sinni og fullorðinsárum, við skipulögðum framtíðina og samtíðina, fórum saman á sýningar og í leikhús, á kaffihús og í alls konar. Afi kom til okkar í mat eða við til hans og samverustundirnar urðu svo ótal margar.
Og svo voru það ævintýrin eins og að láta bjarga sér úr hvíldarinnlögn á Hrafnistu, ná sér í fálkaorðu á Bessastöðum, vera á forsíðu Séð og heyrt eða að koma express með almennilegt kaffi á heilsuhælið í Hveragerði. Eða að láta lífga sig við í kerfinu sem er önnur og miklu stærri saga.
Það er skrítið að núna sé komið að leiðarlokum en um leið fylgir því ákveðinn léttir því afi var kominn á þann stað að hann vildi kveðja. Hugurinn var alltaf bjartur og skarpur en líkaminn fylgdi ekki lengur. Og sem bílstjóri í sínu eigin lífi, þá kaus hann að kveðja á dánardegi elsku bestu Stellu ömmu.
Hvíl í friði, elsku besti afi minn, og grazie mille. Og ég vona að kaffið sé almennilegt þar sem þú ert núna ![]()