Í sumar höfum við notið þess að hafa þrjár duglegar stelpur í húsinu. Þær Áslaug og Þórdís hafa verið mjög duglegar að taka til hendinni heima og ekki síst hafa þær verið duglegar að elda. Þeim finnst það báðum mjög skemmtilegt og þetta hefur til dæmis komið sér vel þegar við Kristján förum í ræktina kl. 18:15 og komum heim af lyftingaæfingu hungruð eins og úlfar.
Í kvöld voru hamborgarar í matinn og þegar við komum heim var búið að gera og græja alls konar. Búa til hrikalega góða hamborgarasósu frá grunni, pikkla rauðlauk og sneiða niður alls kyns ferskt grænmeti. Leggja fallega á borðið, grilla brauðin og stilla upp sósum og fíneríi þegar við komum.
Öllum systrunum finnst líka gaman að fara út í búð og versla í matinn. Við gerum innkaupalista en svo kaupa þær líka það sem þeim dettur í hug að gæti hentað vel eða eitthvað sem passar vel í það sem þær eru að elda. Mamma borgar svo bara í gegnum Aur. Allir glaðir.
Una er svo meistari í frágangi. Hún hefur nýlega uppgötvað gleðina sem fylgir því að vaska upp með tónlist í eyrunum. Það er stórkostlegt að fylgjast með henni, sönglandi eins og enginn sé að hlusta og niðursokkin í uppvaskið.