Síbreytilegt hjarta

Í dag er góður dagur. Í árlegu eftirliti hjá hjartalækninum mínum kom í ljós að hjartaveggirnir eru ekki aðeins hættir að stækka heldur hafa þeir dregist saman. Nú er þykktin eins og hún á að vera og hjartalæknirinn heldur betur ánægður með árangurinn. Hann sagði að ég þyrfti ekki að koma aftur á næstunni (vonandi aldrei) og að ég væri útskrifuð. Hann bætti við að ég mætti auðvitað alltaf hringja ef eitthvað kæmi upp, og að ég mætti gera tilraunir með að hætta á lyfjunum. Ég mun byrja á þeim tilraunum í sumarleyfinu þegar allt verður með kyrrum kjörum.

Hann spurði hverju ég hefði breytt á undanförnu ári. „Ég er ekki alveg viss,“ sagði ég þarna í Kópavoginum, íklædd læknasloppnum og útafliggjandi á bekknum, tengd alls kyns tækjum og mælum. Ég bætti reyndar við að ég hefði sannarlega unnið markvisst að því að minnka stress, útvista verkefnum og slíku en að auðvitað væru ýmsir toppar sem hefðu toppað einmitt mjög nýlega.

Alveg síðan ég hitti hjartalæknininn síðast fyrir ári síðan hef ég verið dugleg að mæla þrýstinginn og hann hefur verið ansi stabíll og á réttu bili. Mæli útafliggjandi í rúminu, rétt áður en ég tek fyrsta kaffisopann til þess að hafa þetta sem nákvæmast.

Ég deildi þessum góðu tíðindum með fjölskyldunni í dag og þegar ég átti nánara samtal um þetta áttaði ég mig á stóru breytunni í mínu lífi. Hvernig getur álagið hafa minnkað svona? Ég er ekki svona dugleg að útvista verkefnum eins og ég sagði lækninum, er það nokkuð? Nei, það er sannarlega ekki málið.

Það er orðið rúmt ár síðan að afi dó. Ég var vakin og sofin yfir honum alla daga og nætur, ekki bara síðasta árið heldur lengi á undan. Hjartað í mér stækkaði til að eiga rúm fyrir einn yndislegan afa, til að eiga pláss fyrir hann í hjartanu. Nú þegar hans nýtur ekki lengur við minnkaði hjartað aftur.

Færðu inn athugasemd