Það eru merkilegir tímar hér í B28 á svo margan hátt. Þetta sumarið erum við fá heima. Una fór til Víetnam í byrjun sumars, Kristján fór til Palo Alto og svo fór Baldur til Frakklands og líka Þórdís til Danmerkur. Öll eru þau í burtu í mislangan tíma.
Síðustu þrjá daga höfum við Áslaug verið einar heima. Það hefur ekki gerst síðan við bjuggum í Kaupmannahöfn. Kristján fór til Kína vorið eða sumarið 2006 og við mæðgur vorum einar í þrjár vikur. Ég man að mér þótti það mjög erfiður tími og lengi að líða. Áslaug var ungabarn, enn á brjósti og einhvern veginn ekkert að gera. Engar streymisveitur og við áttum ekki sjónvarp. Rás 1 bjargaði mér held ég.
En það er nú eitthvað annað uppi á teningnum núna þegar við erum einar heima, búið að vera yndislegt. Elduðum góðan mat, prjónuðum, fórum í göngutúra, fórum út að borða og í bíó með Ernu og höfðum það almennt mjög næs.
Í nótt var ég ein heima í fyrsta skiptið í hundrað ár. Ég man eftir einu skipti í Eskihlíð þegar Áslaug og Þórdís gistu hjá vinkonu en annars hefur þetta varla gerst. Ég svaf vel og vaknaði þegar Ninja vildi fá að borða (Snúður var auðvitað ekki heima í nótt).
Una er á heimleið í þessum töluðu orðum. Er í millilendingu í München og svo lendir hún síðdegis í Keflavík. Við Áslaug ætlum að taka vel á móti snúllunni okkar.