Home

  • Tvöfalt undanúrslitakvöld

    Það var spennandi kvöld hjá okkur í Blönduhlíðinni og nóg að gera eins og venjulega. Ég hjólaði hratt heim úr vinnunni til þess að geta farið með Unu minni í Laugardalshöll þar sem handboltakonan unga leiddi meistaraflokkskonu númer sjö inn á völlinn. Við studdum Valskonur til dáða og leikurinn endaði með sigri þeirra.

    Á laugardaginn kemur að úrslitaleik en þá mæta Valskonur Stjörnunni. Við Una ætlum að sjálfsögðu að mæta í höllina til að sjá úrslitin og styðja okkar konur.

    Eftir leikinn var svo komið að Gettu betur, undanúrslitakvöldinu sjálfu þar sem Áslaug Edda keppti við Versló. Það var nú heldur betur taugatrekkjandi en Áslaug og liðsfélagar hennar svöruðu vel og enduðu á því að rótbursta Verslinga. Það var ánægjulegt að sjá að Áslaug svaraði spurningum um nifteindir og Fermi, Palla sem var einn í heiminum og Makake-apa eins og ekkert væri.

    Áslaug var auðvitað langflottust. Smart klædd og glæsilegt og geislandi af greind. Næst á dagskrá er svo sjálft úrslitakvöldið en það verður eftir tvær vikur. Annað hvort verða það MH-ingar eða Kvenskælingar sem mæta liði MR.

  • Aðalfundur

    Bókmenntahátíðin heldur aðalfundinn sinn á eftir og við Kristján ætlum að bjóða öllum heim í súpu. Til að undirbúa kvöldið hef ég tekið marsstyttinginn minn eftir hádegið og sé fyrir mér að leggja lokahönd á allt þá. Nenni nú samt ekki að skúra.

    Það þarf að koma 20 manns í sæti og mér sýnist að það eigi allt að ganga. Er með tvö borð í stofunni og búin að týna til dúka sem geta dekkað borðið. 20 súpuskálar, glös af öllum stærðum og gerðum komin fram og 20 súpuskeiðar. Allt er klárt.

    Súpan er sænska fiskigrytan sem við höfum svo oft eldað. Ég fæ aldrei leið á henni og það verður að sjálfsögðu boðið upp á aioli með.

  • Tíminn líður

    Í morgun var Baldur Atli alveg viss um að það væri komið vor og í krafti þeirrar sannfæringar fór hann á hlaupahjóli í leikskólann. Hann hafði auðvitað alveg rétt fyrir sér, vorið er komið eins og margoft hefur komið fram á þessum miðli og fuglarnir voru á útopnu í morgun.

    Hjólahjálmurinn sem drengurinn fékk fyrir tveimur árum er orðinn of lítill og það er klárlega kominn tími á nýjan hjálm. Við redduðum okkur í morgun með því a taka gamlan hjálm af Unu traustataki (takk,Lions!) en það er orðið ljóst hver sumardagsgjöfin verður í ár.

    En svo var það málið með að fara á hlaupahjólinu alla leiðina í leikskólann. Ég endaði á því að halda á hjólinu nánast alla leiðina en það rann upp fyrir mér á leiðinni að það er langt síðan að ég hef þurft að halda á Baldri í skólann. Hann verður sífellt duglegri og ólatari við að ganga.

    En það var annað sem var pínu fullorðins í morgun. Baldur fór nefnilega á léttum sumarjakka í leikskólann og slapp þar með við þykku úlpuna, vegna þess hve vorlegt var úti. Og jakkinn var ekki af lakari gerðinni því allar systur hans höfðu átt jakkann á undan Baldri. Áslaug Edda fjögurra ára, Þórdís Ólöf fjögurra ára, Una Karítas fjögurra ára og loks Baldur Atli fjögurra ára. Endingin sannarlega góð og góður jakki sem PG gaf Áslaugu Eddu á því herrans ári 2011.

  • Massinn ég

    Æfingarnar í Afreki síðan í ágúst í fyrra hafa heldur betur haft góð áhrif á mig. Ég er orðin hrikalegur massi, þó ég segi sjálf frá, og jakkar sem pössuðu vel um axlirnar eru skyndilega aðeins farnir að þrengja að mér. Samt er ég ekkert helmössuð en mér líður vel svona og þessar æfingar eru mjög skemmtilegar og gera mikið fyrir okkur.

    Það er samt einn ókostur sem fylgir þessu en það er sá að ég er eiginlega alltaf með harðsperrur. Harðsperrurnar eða strengirnir öllu heldur eru mest áberandi í stóru vöðvunum á lærunum en svo líka á furðulegum stöðum þar sem ég vissi ekki að ég væri hreinlega með vöðva.

    Af bólunni sem fylgdi mér inn í helgina er það helst að frétta að hún er að minnka. Hvort hún verður farin fyrir miðja viku veit ég ekki, en ég vona að minnsta kosti að hún verði farin fyrir bókamessuna í London sem er í næstu viku.

  • Leikhús

    Litlu krakkarnir fengu í jólagjöf frá ömmu sinni og afa í Frakklandi miða á Fíusól í Borgarleikhúsinu. Og það sem meira var, þau fengu einn miða aukalega hvort um sig þannig að Baldur gat boðið mér með sér og Una gat boðið pabba sínum með. Þar duttum við aldeilis í lukkupottinn.

    Við sátum á öðrum bekk sem var heldur framarlega fyrir minn smekk, mér fannst eiginlega frekar óþægilegt hversu nálægt okkur leikararnir voru, en auðvitað sáum við og heyrðum allt vel vegna þess og við skemmtum okkur líka konunglega.

    Auðvitað tókum við leikhúsnammiboxið með og fylltum af ávaxtahlaupi fyrir sýningu. Kláruðum það samviskusamlega fyrir hlé og vorum í sykursjokki og syfjuð eftir því, en það var ekkert sem pepsi max gat ekki hjálpað með.

    Fín sýning en ekki sérstaklega minnisstæð samt.

  • Ég og bólan

    Það er gaman að segja frá því að þessi laugardagur byrjaði með bólu. Ég fékk myndarlega unglingabólu undir munninn og þessa helgina erum við bólan búnar að gera ýmislegt. Bólan er svo myndarleg að mér líður eins og hún fari á undan mér á alla staði.

    Við byrjuðum á handboltamóti í Kórnum. Una var að keppa ásamt vinkonum sínum og stóð sig frábærlega vel. Þær urðu sífellt betri eftir því sem á leið og í síðasta leiknum voru þær mjög öflugar bæði í vörn og sókn. Una stóð fast í fæturna og hleypti engum framhjá sér.

    Svo var það sextugsafmæli hjá fyrrum vinnufélaga í Frankfurtar-verkefninu á milli 14 og 16. Mjög næs afmæli og á fínum stað en ég stoppaði stutt því ég það biðu mín mörg verkefni hér heima og ég þekkti líka fáa, en það var gaman að fara í veisluna á fallegum vetrardegi.

    Ég var mjög elegant til fara, i blárri buxnadragt sem ég fékk lánaða hjá vinnufélaga og í opnum Chie Mihara-skóm enda með svo vel snyrtar táneglur að ég gat alveg sýnt þær almennilega. En bólan var sumsé líka með í för. Vonandi verður ástandið skárra á morgun.

  • Það er komin helgi

    Tíminn líður svo hratt og enn á ný er komin helgi. Í dag er enginn venjulegur föstudagur, því í dag eru 35 ár síðan bjórinn var leyfður. Mikill merkisdagur en mér fannst nú ekkert sérstaklega haldið upp á hann, ég tók að minnsta kosti ekki eftir neinum sérstökum hátíðarhöldum í tilefni dagsins.

    Ég drakk bjór í fyrradag, hrikalega gott að fá sér kaldan bjór, en annars er frekar langt síðan ég hef fengið mér bjór. Þetta er svolítið eins og með kaffið, fyrsti sopinn er langbestur.

  • Hlaupársdagur

    Merkisdagur í dag þegar þar er hlaupársdagur. Eins konar aukadagur og gaman að gera eitthvað óvenjulegt. Ég gerði reyndar ekkert sérstakt en hef stórar áætlanir um næstu daga.

  • Ákvörðun

    Mamma fer aftur til Frakklands í fyrramálið. Hún er búin að vera hér í tvær vikur og það er búið að vera notalegt að hafa hana. Bæði fyrir mig sjálfa, fyrir krakkan og ekki síst fyrir afa.

    Í kvöld tók ég ákvörðun um að hætta að vera bitur út í hana fyrir að láta mig alfarið sjá um afa. Það eina sem ég bað hana um var að þakka mér fyrir að taka þetta verkefni að mér. Hún gerði það og ég fann hvað mér leið strax miklu betur. Engin beiskja lengur og nýir tímar framundan. Ég er þakklát fyrir þessa góðu tilfinningu og ég er líka þakklát fyrir að eiga góða mömmu sem þykir vænt um mig.

  • Minningar á Facebook II

    Önnur minning á Facebook tengist draumi sem mig dreymdi fyrir sjö árum. Textinn sem fór á Facebook var svona:

    Mig dreymdi að ég væri á fundi með agent á bókamessu. „Sýndu mér endilega það besta sem þú átt í up market commercial og svo women’s fiction,“ sagði ég við hann. „Þá skaltu líta á þetta hérna,“ sagði hann og rétti mér heildarútgáfu á verkum Shakespeare. „Tja, ertu viss um að þetta sé málið?“ spurði ég. „Jú, þetta er bæði up market commercial og women’s fiction,“ svaraði hann að bragði. Ég horfði á leðurinnbundna bókina um stund, og til að reyna að finna á þessum einhvern flöt stundi ég upp úr mér: „Við gætum ef til vill skipt um kápumynd …“.

    Þetta er ansi fyndið og ég man þennan draum mjög skýrt. Ekki svo galin hugmynd, Shakespeare er fyrir alla.