Flokkur: Uncategorized

Handbolti

Það ríkir mikil spenna í Blönduhlíðinni í kvöld. Baldur Atli ætlar á sína fyrstu handboltaæfingu í fyrramálið.

Það er allt tilbúið. Búningurinn er klár og samanbrotinn í forstofunni og handbolta- ofurhetjuskórnir bíða á dyramottunni.

Og nú þarf að koma drengnum í ró svo hann sofi nú ekki yfir sig á fyrstu æfingunni.

Legghlíf og legghlífar

Fyrir nokkrum árum rakst ég á uppskrift að forláta legghlífum. Þeta hefur sennilega verið sumarið 2015 eða 2016, ég var nýkomin úr Kerlingafjöllum og mig vantaði legghlífar fyrir næstu ferð sem yrði farin árið eftir. Ég prjónaði og prjónaði, allt gekk vel og fyrr en varði kláraði ég rauða legghlíf sem var með stroffi í brúnu (sauðalitur).

Svo leið og beið og ég týndi uppskriftinni og alltaf átti ég bara eina legghlíf. Ég gerði stundum tilraun til að finna uppskriftina en allt kom fyrir ekki. Legghlífin var einmana ofan í prjónakörfu og beið eftir að fá hinn helminginn sinn. Á tímabili var ég farin að velta fyrir mér að vera með ósamstæðar legghlífar, sem hefði auðvitað verið fullkomlega glatað.

Um daginn var ég svo að taka til í bookmarks-listanum í vinnutölvunni og hvað gerist? Ég hafði þarna um árið sett prjónauppskriftina sem bookmark og þarna beið hún eftir mér mörgum árum seinna. Ég á garnið og prjónana og ég held svei mér þá að þegar ég geng Kjalveg hinn forna að ég verði í glæsilegum heimaprjónuðum og samstæðum legghlífum.

Á náttborðinu

Í anerískum sjónvarpsþáttum setja konur gjarnan á sig handáburð áður en þær fara að sofa og svo er kremið geymt á náttborðinu. Ég er þarna líka enda afar gott að vera með vel smurðar hendur, sérstaklega þegar það er svona kalt úti. Það er engin sérstök tegund uppáhaldi hjá mér en kremið verður að ilma vel.

Í sumar sem leið bættist fótakrem við handáburðinn en ég ber það nú ekki á mig á hverju kvöldi. Helst eftir sturtu eða fótabað.

Á náttborðinu var fyrir blóðþrýstingsmælir enda þarf ég að passa þrýstinginn. Ég er bara 42 ára en ekki 84 ára eins og náttborðið gefur kannski til kynna.

Núna skömmu fyrir jólin fann ég skyndilega fyrir hækkandi aldri. Nú hvíla forláta lesgleraugu innan um handáburðinn, fótakremið og blóðþrýstingsmælinn.

Hvað skyldi koma næst?

Skrifstofuhádegismatur, topp fimm

Ég hef aldrei unnið á vinnustað þar sem ég hef aðgang að mötuneyti svo ég get ekki beinlínis sagt að ég sakni þess (það er ekki hægt að sakna einhvers sem maður hefur aldrei notið) en stundum óska ég þess að þurfa ekki að ákveða hvað ég eigi að borða í hádegismatinn á hverjum vinnudegi.

Í dag var það hrökkbrauð með osti (jei!) og þriðji í súpuafangi (sem var búin til úr brokkolístönglum, meiri afgangar) og í gær var hádegismaturinn alveg eins. Og nú þegar afgangamaturinn er búinn fyrir þessa vikuna get ég látið mig hlakka til næstu tveggja daga og byrjað að engjast í valkvíða.

Eftirfarandi er það sem ég hef úr að velja fyrir fimmtudaginn og föstudaginn í fyrstu viku ársins 2024, en þetta er top fimm listi yfir það sem ég nenni að græja á skrillunni:

  • Egg í örbylgjuofni
  • Rúgbrauð með osti
  • Acocado Toast
  • Jógúrt með ávöxtum
  • Hafragrautur með möndlusmjöri

Þórdís heima í jólafríi

Nú er nýja árið hafið og veikindin að mestu að baki. Við Kristján lágum í pest á milli hátíða og vorum ekki til stórræðanna. 40 stiga hiti, leiðindahósti (sem enn er að trufla okkur og alla aðra í kringum okkur) og almennur slappleiki sem einnig gerir ennþá vart við sig. Vonandi verðum við alfarið laus við þennan óskunda fljótt og vel.

Þórdís okkar kom heim í jólafrí frá Danmörku og mikið sem það var nú yndislegt að hafa hana heima. Það er allt skemmtilegra þegar Þórdís er í húsi og við brösuðum mikið saman eftir því sem heilsan leyfði. Við bökuðum jólasmákökur, gláptum á sjónvarp, prónuðum og elduðum góðan mat, spiluðum heil ósköp og svo las hún Bróðir minn Ljónshjarta fyrir yngri systkini sín. Hún kallar Baldur Atla Snúð Ljónshjarta.

Við gáfum Þórdísi forláta hlaupaskó í jólagjöf enda okkar kona orðinn mikill hlaupari í danska flatlendinu. Hún ætlaði bara rétt að skreppa út að hlaupa á dögunum en endaði í hálfmaraþoni. Hún átti eydda skó af mér en fyrir svona duglega konu dugir ekkert minna en almennilegt (og glæsilegt) skópar. Skórnir voru prufukeyrðir í snjónum á jóladag og maður minn hvað það var frábær hlaupatúr hjá okkur mæðgum. Köstuðum mæðinni efst á Skólavörðuholtinu þar sem við skelltum auðvitað í eina klassíska sjálfu.

Hlaupadrottningar kasta mæðinni

Suður með sjó: Bachmann í Garði

Mig hefur lengi langað til að taka hús á Gyrði, a.k.a. Bachmann, á heimili hans í Garði og í dag varð loksins af því.

Baldur og Una léku við Mirru sem tók vel á móti okkur eins og skáldið sjálft sem var hið hressasta. Við drukkum kaffi og færðum skáldinu ylvolgar madeleines. Og svo voru það samræður um Jon Fosse og nóbelinn, garðrækt og gróðurhús og Japan, bringusund og Jónas Hallgrímsson.

Við keyptum málverk af Gyrði undir áhrifum frá samræðum um japanska menningu. Svo var stefnan tekin á sundlaugina í Garði en því miður var lokað vegna árshátíðar starfsfólks bæjarins. Við kíktum á vitana og sjóinn líka.

BA í nýja
UK við gamla

Þá var stefnan sett á Vatnaveröld í Keflavík og maður minn hvað það var dásamlegt. Eins og að vera á sólarströnd nema auðvitað bara í ísskápshita. Og það var DJ!

Ég veit ekki hvaða plötusnúður var á vakt í dag en Cat People með David Bowie var algjört eyrnakonfekt í heitasta pottinum í sundlauginni í Keflavík á þessu laugardagssíðdegi í október.

Besta lagið í Kef!

Þegar ég verð stelpa

Við Baldur og Una fórum í sund núna síðsumars. Á meðan Una fór í wipe out brautina lágum við mæðginin í pottinum og nutum lífsins.

Baldur sagði: Mmmm mamma. Þegar ég verð stelpa ætla ég að eiga svona svartan sundbol eins og þú. Og mamma. Þú ert svo feit og mjúk, það er svo notalegt.

Er annað hægt en að bráðna við svona orð?

Olla amma

Olla amma vitjaði mín í draumi í morgun. Hún var svo falleg og það stafaði af henni mikilli hlýju. Mér leið vel þegar ég vaknaði, nýbúin að kveðja ömmu.

Ég hafði verið að brasa eitthvað og kom til mín. Studdi annað hvort pabba sinn eða frænda sinn, sem var lifandi, en amma var klárlega dáin. Ég sagði (grátandi) að ég hefði gert þetta fyrir hana, en hvað það var veit ég ekki. Eitthvað bras í sambandi við eitthvað. Og amma, sem var á svipuðum aldri og ég í draumnum, öll svo glæsileg og brosmild, sagði að þetta yrði allt í lagi.

Þetta verður allt í lagi, Stella mín, sagði amma mín við mig í draumnum.

Sumarið

Sumarið kemur nú um mánaðarmótin segja veðurfræðingar en ég er ekki sannfærð. Hér rignir endalaust og allt er orðið fagurgrænt en vorið hefur verið ansi kalt.

Veðurspáin fyrir næstu daga boðar ekki sumar, nema þá fyrir austan kannski. Ég bíð samt vongóð eftir sumrinu og vona að veðurfræðingarnir reynist sannspáir.

Annars er allt samkvæmt áætlun í garðinum. Fylltur skógarblámi og júlíulykill eru fyrstu blómin, því næst fyllt hófsóley. Silfursóleyim og gullhnappur (?) eru á leiðinni og geitarskeggið sprettur hratt. Eftirlætið mitt er samt yllirinn sem fer af stað í febrúar og er nú fagurgrænn og breiðir fallega úr sér þétt upp við gróðurhúsið.

Fyllt hófsóley
Júlíulykill
Silfursóley

Að stækka um heilt númer á einni nóttu

Baldur Atli hefur verið þreyttur eftir leikskólann undanfarna daga. Líklega sambland af þreytu eftir veturinn og bið eftir langþráðu páskafríi og svo held ég líka ad litli strákurinn minn sé að stækka.

Um daginn sofnaði Baldur klukkan sex yfir sjónvarpinu og svo svaf hann til klukkan hálfátta morguninn eftir. Við sögðum við hann að hann hlyti að hafa stækkað um nóttina og snáðinn gáði. Jú, hann reyndist hafa stækkað og tengdi það umsvifalaust við að hann hlyti að vera orðinn fjögurra ára gamall. Nú segist hann vera orðinn fjögurra og það er ekki í boði að andmæla því.

Annar gullmoli: í morgun sagði Baldur mér sögu sem var alveg hræðileg. Hann taldi upp það allra versta sem honum kom til hugar og átti heima í sögunni: það kom tröllskessa, það kom vofa, það kom hauskúpa, svo kom stjúpa… Minn maður með frásagnarlistina alveg á hreinu.