Home

  • Saumar en ekki hefti

    Ég skipti um umbúðir á sárinu eftir sturtu áðan. hafði rölt í apótekið eftir nýjum plástri og nu var kominn tími á skipti.

    Læknirinn sem útskrifaði mig sagði að ég væri heftuð saman en þegar ég tók plásturinn af kom í ljós þessi fíni tvöfaldi saumur.

    Örið verður ennþá glæsilegra þegar að þar að kemur. Ég er alveg tilfinningalaus í kringum sauminn og verð það sennilega lengi.

    Lekkert!
  • Baldur Atli á leið til Frakklands

    Í þessum töluðu orðum er Baldur minn á leiðinni í sumardvöl í Frakklandi. Hann ætlar að verða næstu þrjár vikurnar hjá ömmu og afa í Lande Basse.

    Ólöf Arngríms fylgir honum út en Þórdís mun fylgja honum heim. Hann var svo spenntur að leggja í hann.

    Á meðan Baldur er í alþjóðlegum sumarbúðum stráka sem eru alveg að verða sex ára ætla ég að jafna mig á lærbrotinu. Áslaug og Þórdís eru heima að passa mig.

  • Sólardagar

    Ég er komin með sólbrúna fótleggi eftir að hafa verið í stuttbuxum í blíðunni síðustu daga. Ég hef setið úti og prjónað og hlustað á hljóðbækur.

    Fyrst hlustaði ég á Litlu bókabúðina við vatnið og því næst 500 mílur frá mér til þín. Báðar bækurnar eftir vinkonu mína Jenny Colgan.

    Nú er ég byrjuð á fyrstu bókinni í seríunni (röðin skiptir ekki máli) og ég elska hvernig Colgan tekst að búa til trúverðugar persónur og spennandi sögusvið. Ég er líka hrifin af ást hennar á bókum.

    Ég lánaði Sigrúnu tengdó Ferðabíó herra Saitos. Ég var mjög hrifin af henni og ég vona að hún falli á kramið þar sem Sigrún liggur fótbrotin á deild B5 á Borgarspítalanum.

  • Á batavegi

    Það er svo gott að vera í afslöppun og þetta er mjög verðskulduð hvíld hjá mér. Dagarnir eru kaffi og lestur, lyfjagjöf og vítamín, matur (mikið prótín) og prjónaskapur. Og svo auðvitað Marías og knús.

    Mér finnst allt annað að sjá mig núna en fyrir örfáum dögum. Mér líður líka hundrað sinnum betur en fyrir örfáum dögum. Leitt að það þurfti lærbrot svo ég myndi fara að slaka á.

    Baldur er mjög duglegur að dunda sér í gegnum þetta allt en hann þarf samt að æfa sig í því.

  • Nýklipptur gaur

    Baldur Atli var klipptur hjá tvö þúsund kallinum í gær. Það er sonur hans Halls vinar okkar í gönguhópnum en pabbi hans kallar hann þetta því hann er fæddur árið 2000. Dæmigert Hallamál.

  • Marías

    Sumarið 2025 er sumarið sem ég kenndi Þórdísi minni að spila marías, og þvílík skemmtun sem það er að spila við hana.

    Ég var aðeins farin að ryðga í reglunum en Baldur hjálpaði mér að rifja upp það helsta og nú er þetta alveg komið. Ég hef náttúrlega spilað þetta spil síðan ég man eftir mér en það var orðið aðeins djúpt á nokkrum hlutum.

    Spiladrottningin

    Við spilum eins og Stella amma og Pétur afi; notum smádót til að hjálpa okkur að muna eftir hjónum, grikkjum og veltóum, og spilum sex spil í einni umferð.

    Svo má drekka kaffi og spjalla á meðan á spilinu stendur eða hafa tónlist á. Þetta eru mjög notalegar stundir hjá okkur mæðgum.

  • Er ég hundrað ára?

    Nú þegar ég er nýútskrifuð frá hjartalækninum er gaman að segja frá því að næsta eldri borgara verkefni er að taka við.

    Síðan um miðjan maí hef ég verið að farast úr verkjum í mjöðminni. Ég var svo verkjuð við hreyfingu að ég brást beinlínis í grát við ástig eða álag. Þetta gat til dæmis verið þegar ég stóð upp og steig fyrstu skrefin eða þegar ég steig af hjólinu mínu. Tárin komu fram og sársaukinn var gríðarlegur. Ég frysti kortið í Afreki og setti allan fókus á að hvíla mig, þótt auðvitað hafi ég verið að brasa heilmikið (skúra, ryksuga, halda nokkur matarboð, fara með Baldur í leikskólann, fara út í búð – semsagt lífið!).

    Þegar ég fór í Hjartavernd um daginn var þetta svo slæmt að maður á bílastæðinu bauðst til að fylgja mér inn. Fóturinn vildi ekki hlýða hausnum á mér, hann vildi ekki láta stíga í sig. Ég fór í gufu, fór í sjósund, tók verkjalyf en ekkert af þessu hafði áhrif. Ég mætti til sjúkraþjálfara og fór í nudd til hans Rikka, pantaði tíma hjá kvensjúkdómalækni. Það eina sem virtist hjálpa var að láta toga í fótinn því það var eins og togið létti á sársaukanum.

    Ég grenjaði út tíma hjá lækni á heilsugæslunni þarna í maí og fékk að fara í röntgen og ómskoðun. Það kom ekkert út úr því. Ég var hvergi brotin og það var bókstaflega ekkert að sjá. En alltaf hélt verkurinn áfram.

    Sjúkraþjálfarinn fór að vinna með að þetta væri brjósklos og setti mig í plankastrekkjara. Ég var hjá honum tíu sinnum og það var mjög gott að láta teygja á sér. Smám saman dofnaði sársaukinn og ég var alveg hætt að haltra.

    Á mánudegi 23. júní var næstsíðasti tíminn í togmeðferðinni en þá um kvöldið átti ég einmitt tíma í segulómun sem ég hafði grenjað út þegar ég var sem verst. Sjúkraþjálfarinn sagði í djóki að hann væri alveg viss um að ekkert kæmi út úr þessu en ég skyldi nú samt taka tímann fyrst ég hefði fengið hann.

    Daginn eftir, á þriðjudeginum, áttum við Þórdís að fara í siglinu með National Geographic. Báturinn átti að fara seinnipartinn; ég fór í togið þennan þriðjudagsmorgun og ég ætlaði svo að vinna til hádegis. Ég kastaði kveðju á Gulla sjúkró á leiðinni út, en þá bað hann mig að bíða aðeins. Sagðist ætla að sýna mér dálítið merkilegt.

    Þetta merkilega reyndist vera niðurstaðan úr segulómuninni. Það kom semsagt í ljós á myndunum að lærbeinshálsinn vinstra megin var í sundur. Ég var því búin að vera lærbrotin í sex vikur án þess að vita af því. Það var mikið lán í óláni að brotið hafði ekki aflagast.

    Áfallið við að sjá þessa mynd og heyra þessar fregnir var gríðarlegt og ég hugsaði mikið út í allt það sem hefði getað gerst á þessum tíma sem hefði getað aflagað brotið.

    Ég áttaði mig ekki á því strax hversu alvarlegt þetta brot var enda hafði ég gengið um alla daga. Ég átti t.d. ekki von á því að komast strax til bæklunarlæknis svo Gulli sendi póst á lækna sem hann þekkti til að koma mér að. Svo sagði hann mér að hringja á heilsugæsluna.

    Ég hringdi á heilsugæsluna og bað um að læknirinn hringdi í mig. Rétt fyrir hádegið gerði hún það og sagði mér að fara beint á slysó. Ég fór þangað í áfalli, keyrði grátandi niður í Fossvoginn og labbaði inn. Sem betur fer var ekki mikið að gera og ég komst tiltölulega snemma að.

    Beðið eftir aðgerð

    Það var strax tekin ákvörðun um aðgerð, enda er þetta brot flokkað sem bráðatilvik. Ég átti að fara í aðgerð strax í vikunni og var send heim á hækjum. Mátti alls ekki stíga í fótinn (sem mér þótti alveg galið) og átti að hafa mjög hægt um mig. Ég fór í veikindaleyfi og fastaði þar til ég var tekin í aðgerð.

    Fyrst var mér sagt að þetta væri tiltölulega lítið mál og ég yrði send heim samdægurs. Tvö lítil göt, tvær skrúfur og plástur á meiddið. En svo varð þetta töluvert flóknara: Nagli í kúluna með áfastri plötu og tveimur skrúfum.

    Það var gerð mænudeyfing og létt svæfing og aðgerðin tók ekki langan tíma og gekk vel að sögn læknisins. En ég var ekkert farin á fætur beinlínis eftir nóttina og var afar verkjuð. Ég endaði á að vera þrjár nætur á Borgarspítalanum og kom heim á fjórða degi.

    Nýjar græjur

    Ég hefði aldrei getað þetta án hjálpar. Þórdís og Áslaug hafa verið einstaklega ljúfar og hjálpsamar og Þórdís hefur borið allan hita og þunga af heimilishaldinu undanfarið. Baldur hefur líka verið ljúfur og góður við systur sínar tvær. Kristján er í Stanford og Una er í Víetnam svo heimilishaldið er aðeins minna en venjulega.

    Sumarið fer í að jafna mig. Ég fer mér hægt, tek mitt oxycontin og sprauta mig með blóðþynningarlyfi í magann daglega. Horfi á glæpaþætti í sjónvarpinu. Drekk kaffi. Hugsa um hvernig hægt er að bæta hægðirnar. Hlusta á útvarpið.

    Læknarnir klifuðu á því að ég væri ung og hraust en miðað við lífstílinn og sjúkrasöguna líður mér dálítið eins og ég sé 95 ára. Og það er kannski bara ekkert svo slæmt eftir allt saman.

  • Síbreytilegt hjarta

    Í dag er góður dagur. Í árlegu eftirliti hjá hjartalækninum mínum kom í ljós að hjartaveggirnir eru ekki aðeins hættir að stækka heldur hafa þeir dregist saman. Nú er þykktin eins og hún á að vera og hjartalæknirinn heldur betur ánægður með árangurinn. Hann sagði að ég þyrfti ekki að koma aftur á næstunni (vonandi aldrei) og að ég væri útskrifuð. Hann bætti við að ég mætti auðvitað alltaf hringja ef eitthvað kæmi upp, og að ég mætti gera tilraunir með að hætta á lyfjunum. Ég mun byrja á þeim tilraunum í sumarleyfinu þegar allt verður með kyrrum kjörum.

    Hann spurði hverju ég hefði breytt á undanförnu ári. „Ég er ekki alveg viss,“ sagði ég þarna í Kópavoginum, íklædd læknasloppnum og útafliggjandi á bekknum, tengd alls kyns tækjum og mælum. Ég bætti reyndar við að ég hefði sannarlega unnið markvisst að því að minnka stress, útvista verkefnum og slíku en að auðvitað væru ýmsir toppar sem hefðu toppað einmitt mjög nýlega.

    Alveg síðan ég hitti hjartalæknininn síðast fyrir ári síðan hef ég verið dugleg að mæla þrýstinginn og hann hefur verið ansi stabíll og á réttu bili. Mæli útafliggjandi í rúminu, rétt áður en ég tek fyrsta kaffisopann til þess að hafa þetta sem nákvæmast.

    Ég deildi þessum góðu tíðindum með fjölskyldunni í dag og þegar ég átti nánara samtal um þetta áttaði ég mig á stóru breytunni í mínu lífi. Hvernig getur álagið hafa minnkað svona? Ég er ekki svona dugleg að útvista verkefnum eins og ég sagði lækninum, er það nokkuð? Nei, það er sannarlega ekki málið.

    Það er orðið rúmt ár síðan að afi dó. Ég var vakin og sofin yfir honum alla daga og nætur, ekki bara síðasta árið heldur lengi á undan. Hjartað í mér stækkaði til að eiga rúm fyrir einn yndislegan afa, til að eiga pláss fyrir hann í hjartanu. Nú þegar hans nýtur ekki lengur við minnkaði hjartað aftur.

  • Noregsferð

    Una og Baldur lögðu af stað í sumarferðina sína í morgun. Þau fara með Sigrúnu ömmu til Noregs þar sem þau dvelja alveg til 9. ágúst.

    Spennan var mikil en það féllu líka nokkur tár á flugvellinum í morgun. Ferðin gekk vel og það var kátir krakkar sem komu á áfangastað seinnipartinn.

    Við hlökkum til að fá þau aftur heim og þá munu þau eflaust hafa stækkað um þó nokkur númer!

  • Sólarfrí

    Það var gefið frí í vinnu eftir kl 14 í dag því það sá til sólar. Ekki mikið verið áberandi sólin nú í sumar heldur hefur rignt alveg gríðarlega.

    Í tilefni sólarfrísins fórum við á Úlfarsfell. Gengum aðra leið en venjulega og var þessi eiginlega skemmtilegri en hin, en líka talsvert styttri sem var fínt því Baldur var með í för og nennti engan veginn að labba.

    Una var í sundi með Kolfinnu en hún kemur bara með næst.