Home

  • Eyrnaormur

    Ég fékk lag á heilann um daginn og gat ekki með nokkru móti losnað við laglínuna úr hausnum á mér. Að syngja lagið til enda virkaði ekki því ég kunni bara stefið. Það hljómaði svona:

    Dúmm, dúmm, dúmm, dúmm, dúmm.

    Dúmm, dúmm, dúmm, dúmm, dúmm.

    Dúmm, dúmm, dúmm, dúmm, dúmm.

    Dúmm, dúmm, dúmm, dúmm.

    Dúmm, dúmm, dúmm, dúmm.

    Lagið er ekki sungið og því gat ég ekki leitað eftir textabroti. Ég prófaði að raula lagið fyrir símann en síminn þekkti það ekki. Skrifast sennilega frekar á lélega lagvísi mína heldur en tæknina.

    Ég leitaði ráða hjá söngkonu sem er mamma vinkonu hans Baldurs. Hún kannaðist við lagið en kom því samt ekki fyrir sig. Hún fór heim til sín og söng stefið fyrir manninn sinn, sem er tónlistarmaður og þrefaldur Popppunktsmeistari, en hann kom því ekki heldur fyrir sig.

    Í hádeginu í gær var ég enn að raula þetta lag. Þá fékk Kristján þá frábæru hugmynd að hringja í vin, nefnilega Arnar Eggert. Hann kveikti auðvitað strax á þessu: lagið er eftir Jean-Michel Jarre.

    Eftirleikurinn var auðveldur. Þetta er langvinsælasta lag tónlistarmannsins á Spotify og heitir Oxygene Pt. 4. Geggjað lag!

    Svo heyrði ég aftur í söngkonunni. Hún hafði víst sungið réttar nótur fyrir manninn sinn, en í vitlausum rytma. Þau hjónin rifjuðu upp að þetta væri stefið sem var í Poppkorns-þáttunum sálugu, þeirri gargandi snilld.

  • Vegasjoppa

    Fyrir tólf árum síðan eyddum við jólum og nýári á Indlandi. Við dvöldum í þrjár vikur í Puttaparthi sem er bær sunnarlega á Indlandi miðju. Þar bjó þá Sigrún amma og rak skóla fyrir fátæk börn og bjó þeim heimili líka. Sjálf bjó amma í því sem við kölluðum ömmuhús.

    Við ferðuðumst líka um Suður-Indland með Sigrúnu ömmu og leiðsögumanni sem sá um aksturinn og sýndi okkur helstu staði. Áslaug og Þórdís voru fimm og þriggja ára sem gerði ferðina ennþá ævintýralegri en ella því alls staðar vöktu þessar ljóshærðu prinsessur athygli innfæddra.

    Í einu stoppinu áðum við í vegasjoppu, hálfgerðum Botnsskála eiginlega, og þar gátum við fengið okkur bæði að borða og drekka. Sjoppan var greinilega vinsæll áningarstaður því heilu rútufarmarnir stoppuðu í vegarkantinum og fólk þusti út í glugga til að skoða stelpurnar tvær sem léku sér með dósir og steina fyrir framan vegasjoppuna.

    Facebook minnti mig á þessa ferð með því að sýna mér mynd af fólkinu í rútunni. Myndavélarnar allar á lofti og stelpurnar tvær grunlausar utan myndar.

  • Ruðningar

    Það var afar fátítt að Fréttablaðið bærist hingað inn á heimilið, það kom kannski tíu sinnum síðastliðin þrjú ár eða svo, en þegar það barst inn um lúguna litu kettirnir á það sem heimsent salerni fyrir sig og því var blaðið hvort sem er alltaf ólæsilegt. Við söknum þess því ekki mikið, nú þegar Fréttablaðið er ekki lengur borið út í hús.

    Við söknuðum þess samt um daginn þegar Una sagði okkur að það væri mynd af sér og vinkonum sinum á forsíðunni. Hún var að klofa snjóruðninga við gangbrautina við Hamrahlíðina á heimleið úr skólanum. Ljósmyndarinn hafði smellt af einmitt þegar Una steig út a götuna. Hún var í bleiku snjóbuxunum.

    Forsíðustúlkan

    Una er snjöll og sjálfbjarga. Hún náði sér í eintak af blaðinu þar sem hún er á forsíðunni og sýndi okkur. Nú eigum við blaðið og það er búið að laga þessa ruðninga, þremur vikum eftir að gangstéttarnar voru ruddar.

  • Ráðgáta

    Í fyrrasumar fékk ég skilaboð frá vinkonu minni og fyrrum samstarfskonu. Hún hafði verið í baði að lesa bók eftir norrænan glæpasagnahöfund. Bókin var, minnir mig, hvorki á íslensku né móðurmáli höfundar heldur á ensku. Út úr bókinni datt passamynd af konu eða stelpu sem hún sagði að væri nauðalík mér. Reyndar sagði hún að myndin hlyti að vera af mér. Svo sendi hún mér mynd af myndinni.

    Nokkrum vikum seinna bauð vinkona mín mér í heimsókn. Við drukkum rauðvín af betri gerðinni og gæddum okkur á forláta osti á meðan við ræddum saman og myndina bar auðvitað á góma. Hún hafði hangið á ísskápnum hjá henni síðan í baðferðinni fyrr um sumarið en nú fékk ég hana til eignar, enda mynd af mér sagði hún.

    Er þetta ég eða tvífari minn?

    Ég er samt hreint ekki sannfærð um að þetta sé ég. Myndin líkist mér óneitanlega en er ekki eins. Augabrúnirnar dekkri en á mér (ég hef aldrei litað þær) og háraliturinn stemmir ekki alveg. Auk þess man ég alls ekki eftir þessari myndatöku. Passamyndataka er sjaldgæf og ég man eftir þeim, man eftir þessum myndakössum þar sem flassið kemur óvænt og skyndilega og myndefnið ekki tilbúið. Og ég les ekki norræna glæpasagnahöfunda á ensku (nema hugsanlega finnska).

    Ég er engu nær um uppruna myndarinnar. Ég er hvorki sannfærð um að þetta sé ég né hið gagnstæða. Ég er alveg clueless. Myndin er uppi á skrifborði hjá mér. Hvað á eg að gera?

  • Spottaðu Snúð

    Snúður hefur verið duglegur að heimsækja nágranna okkar, hann hefur elt fólk heim úr Sunnubúð, fylgt krökkum heim úr Hlíðaskóla og laumað sér inn um glugga og dyragættir. Það voru komnar svo margar sögur af honum og fyrirspurnir á Hlíðagrúpuna á Facebook að við bjuggum til sérstaka síðu fyrir hann þar sem hægt er að setja inn myndir og segja sögur.

    Spottaðu Snúð