Á þessum skínandi fína páskasunnudegi drukkum við kaffið úti í sólinni. Himinninn var heiðblár og ef við sátum í skjóli, þá var þetta eins og fínasti sumardagur. Kaffið var ljómandi gott.
Á tilsettum tíma, alveg samkvæmt veðurspánni, byrjaði að rigna. Sem betur varði rigningin stutt en þá vorum við einmitt á leið í bakaríið. Baldur fór hjólandi, auðvitað, en við hin löbbuðum.
Það var röð af heimamönnum í bakaríinu og við keyptum bæði pain au chocolat og croissant en við keyptum líka funheitar bagettur úr ofninum. Þær voru ennþá volgar þegar við komum heim og fengum okkur páskadagsbrunchinn í sólstofunni.
Jesú úr brauðhúsinu, sem hefur dvalið í sólstofunni undir laki síðan framkvæmdir á brauðhúsinu hófust, var sviptur lakinu og skreyttur fjögurra blóma páskalilju í tilefni dagsins, páskalilju sem Una fann einmitt á leið í bakaríið og tók með sér heim. Við fengum okkur súkkulaðisardínur í desert.