Chartres, Hjartrósarborg

Á leiðini frá Bretagne til stoppuðum við í Chartres sem er um 80 km frá París. Við keyrðum í einum rykk frá Lande Basse til Chartres, það eru tveir og hálfur tími. Samkvæmt Guide vert frá Michelin er Hjartrósarborg þriggja stjörnu stopp, en það þýðir að vegfarendur eigi absolút að leggja leið sína þangað. PG heldur mikið upp á borgina og það er gaman að tala um hana við hann.

Það er langt síðan við höfum komið þangað, meira en 20 ár og þar með var staðurinn kominn í fyrningarnar. Við komum við í Chartres þegar við vorum á ferð í Frakklandi með Kavos árið 2002, en þá stoppuðum við í Bretagne og keyrðum svo niður til Bordeaux. Komum líka við í Cognac í þeirri ferð (fórum í koníakslestina frægu) og stálum lykli af hótelherbergi.

Núna vorum við á ferð eftir hádegi á mánudegi núna og staðurinn var steindauður. Allar búðir lokaðar og nánast allir veitingastaðir. Við fundum veitingastað alveg upp við kirkjuna guðdómlegu sem var með service allan daginn og fengum okkur síðbúinn hádegismat sem var mjög fínn. Svo héldum við í kirkjuna sem er svo dásamlega fögur með fallegustu og stærstu rósettum sem fyrirfinnast.

Það er skrítið til þess að hugsa að meginhluti kirkjunnar var byggður rétt eftir árið 1000 og stendur kirkjan á grunni fimm kirkna sem voru þarna á undan. Ég veit ekki hvort krökkunum hafi þótt þetta jafn merkilegt og mér en við vorum að minnsta kosti sammála um að kirkjan í Chartres hefði átt að bjóða spilastokka til sölu með rósettumyndum á bakhliðinni. Við hefðum sannarlega keypt slíkan spilastokk, skítakalls-meistararnir sem við erum.

Færðu inn athugasemd