Snemmbúinn sumardagurinn fyrsti

Í dag kom sumarið mjög skyndilega og með látum. Það hefur verið ansi grátt undanfarið og ansi kalt. Blómin hafa setið saman fastast ofan í moldinni og laufin hafa bara nánast ekki hreyfst úr sporunum. Það hefur ísskápshiti undanfarið sem mér skilst að stafi af þaulsætinni lægð eða hæð einhvers staðar hérna nálægt okkur en nú um helgina losnaði um hana og lífið fékk á sig lit aftur.

Við nýttum daginn og vorum mikið úti. Baldur hjólaði hér um allt og Una fór um hverfið á hlaupahjólinu sínu. Við vorum uppi í Hlíðaskóla að leika og ég fór út að hlaupa til að klára vikuskammtinn af kílómetrum. Við spiluðum á svölunum (ekki hægt að vera úti í garði vegna framkvæmdanna) og sleiktum sólina. Það var samt bara 8 stiga hiti en þvílíkar átta gráður!

Um kvöldið fórum við niður á Hlíðarenda að fylgjast með Val í Evrópukeppninni. Það var hrikalega gaman, mikil stemning og Valsmenn taka með sér átta marka mun á leikinn sem verður í Rúmeníu um næstu helgi. Það var sumarleg stemning að labba heim í kvöld eftir leikinn, sólin skein og kvöldlognið var komið og hverfið var allt fullt af rauðklæddum Völsurum.

Færðu inn athugasemd