Home

 • Þriggja ára

  Baldur Atli er á dásamlegum aldri núna. Hann tekur inn mikið magn upplýsinga í gegnum samtöl, bækur og teiknimyndir og annað og vinnur skemmtilega úr þeim og miðlar nýrri þekkingu til okkar með ýmsu móti.

  Svo er hann mikill grínisti. Hann sat í bílnum um daginn og sönglaði af miklum móð typpi, typpi, typpi (hann er upptekinn af þessu orði og öðrum álíka). Svo þagnaði hann skyndilega og sagði við mig: mamma, þú sagðir typpi.

  Ha? Svaraði ég, ég sagði ekki typpi. Þá svaraði minn maður, mjög prakkaralegur á svipinn: jú, þú sagðir það núna!

 • 5K og tjaldurinn

  Strava taldi ekki kílómetrana mína fimm í frostinu í morgun svo þeir verða skráðir hér. Það var sex stiga frost og sól og hlaupið var dásamlegt eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

  Við Siglunesið var hópur tjalda að vakna af værum blundi. Það var dýrðleg sjón og ómurinn af söngnum var sömuleiðis yndislegur eins og þetta myndskeið sýnir.

 • Mánudagssundið

  Á mánudögum er Una á sundæfingu og þá fæ ég að fara með henni í laugina. Þetta eru meðal bestu stunda vikunnar hjá mér og ég kem alltaf endurnærð uppúr.

  Rútínan er yfirleitt svipuð. Ég syndi á bilinu 1000-1500 metra, er lengi í gufunni og skelli mér svo í kalda. Svo fer ég í gömlu pottana, oftast þann heitari.

  Stundum hitti ég vini eða kunningja en yfirleitt finnst mér bara best að vera ein og segja sem fæst. Sérstaklega er gott þegar eg næ að synda langt og næ þar með þessu hugleiðsluástandi sem mér finnst svo gott að ná. Það næst yfirleitt eftir 600 m eða svo.

 • Shakespeare fyrir alla

  Um daginn poppaði upp hjá mér skemmtileg minning á Facebook. Þetta var draumur sem mig dreymdi fyrir sex árum síðan, vorið 2017.

  Í draumnum var ég stödd á bókamessu og komin á fund með agenti. Hann spyr hverju ég sé að leita að og ég svara að bragði að ég sé að leita að up market commercial og women’s fiction, en það er auðvitað það sem ég leita stöðugt að.

  Þá svarar okkar maður harla glaður að hann sé einmitt með það sem ég er að leita að! Svo dregur hann upp heildarverk Shakespeare, leðurinnbundnar bækur alsettar gyllingum.

  Ég velti þessu fyrir mér um stund og vóg og mat möguleikana. Loks stundi ég upp að jú, þetta gæti eflaust gengið, en það þyrfti að skoða það að skipta um kápu…

 • Vinkonuferð í vetrarfríi

  Þórdís og vinkonur hennar fengu mömmurnar með sér í vinkonuferð til London. Ferðin var skipulögð með löngum fyrirvara og allir fengu tíma til að hlakka til. Leit ekki vel út á tímabili vegna verkfallana en þau höfðu engin áhrif á þessa tilteknu ferð.

  Við gistum í Shore Ditch en þangað hafði ég aldrei komið. Í hverfinu er mikil veggjalist, verk eftir Banksy meðal annars og Brick Lane sem er fræg gata. Í þessum borgarhluta búa margir með bengalskan uppruna og stemningin er alveg sérstaklega lifandi og skemmtileg. Hótelið var gott og mun huggulegra en bókamessuhótelin við Tottenham Court.

  Hápunktur ferðarinnar var Mamma Mia partýið þar sem stelpurnar dönsuðu og sungu allt kvöldið og skemmtu sér og öðrum hrikalega vel, en annars var allt vel lukkað: út að borða, búðarferðir og labb um alla borg.

 • Að dreyma fyrir nafni

  Una Karítas fæddist á Valentínusardaginn árið 2014 og varð því níu ára gömul í vikunni. Það var mikil spenna fyrir deginum og spennan er ekki síðri fyrir 10 ára afmælið að ári, tveggja stafa tala og stórafmæli.

  Afmælisstúlkan

  Skömmu áður en ég varð ólétt að henni dreymdi mig fyrir nafninu. Draumurinn var á þá leið að ég var ólétt og ég fór ofan í peysuna með höndina og náði í litla stúlku. Ég hélt á henni um stund fyrir framan mig en sá að hún var ekki reiðubúin að fæðast strax. Setti hana því aftur ofan í peysuna en vissi í draumnum að ég mundi brátt eignast stúlkubarn sem ætti að heita Karítas.

  Þennan draum ræddi ég auðvitað heima og svo við minn kæra vin Þorstein frá Hamri, en við ræddum gjarnan drauma þegar við hittumst.

  Mánuði síðar varð ég ólétt og það reyndist vera kærleiksbarnið Una Karítas sem var á leiðinni. Hún átti að koma 30. janúar en lét bíða eftir sér. Kom á föstudeginum 14. febrúar eftir gangsetningu.

  Á meðan ég beið eftir hríðum sat ég og heklaði teppi handa henni og það varð bara jafnstórt og hríðarnar leyfðu. Karlakór stóð fyrir utan gluggann allan daginn og söng Brennið þið vitar með miklum bravúr. Seinna kemst ég að því að það var verið að taka upp auglýsingu en þá fannst mér þetta fullkomlega eðlilegt. Það hefur alltaf einhver einstakur kraftur fylgt henni Unu minni.

 • Fuglasöngur

  Í morgun vaknaði ég við fuglasöng í fyrsta skipti á þessu vori. Það var kolniðamyrkur úti klukkan 6:50 en fuglarnir í trjánum hérna sunnan við húsið voru hinir hressustu og sungu mig í gang.

  Ég man ekki hvenær morgunsöngurinn hefur byrjað undanfarin ár en þetta er dásamlegur vorboði. Þegar fuglarnir hafa sungið svolitla stund hættir söngurinn. Ég veit ekki almennilega hvað fuglarnir taka sér þá fyrir hendur, grunar að þeir fari jafnvel aftur að sofa. Mundi gera það sjálf.

  Hitt sem ég vaknaði við í morgun var vöntun á hávaðaroki. Ólíkt veðrinu undanfarið var logn í morgun og því var fagnað með hressandi útihlaupi.

 • Fiskur

  Uppáhaldsmaturinn okkar, eða að minnsta kosti mjög ofarlega á topplistanum, er soðin ýsa að hætti Stellu ömmu. Það er sannkallaðir skyndibiti, tekur bara fimm mínútur að elda, og klikkar aldrei.

  Fyrir utan ýsuna sjálfa skiptir öllu máli að nota lítið vatn við suðuna, gott eplaedik og vel af salti. Og svo er það tíminn: nákvæmlega fimm mínútur undir loki eftir að suðan kemur upp.

  Í skólanum er ýmist soðinn hvítur fiskur eða bleikur fiskur. Una hefur ekki hugmynd um hvort það er þorskur eða ýsa, lax eða silungur sem hún fær.

  Gæti þess vegna verið langa, ef verið er að spara. Ætli skólakrakkar fái nokkuð þorsk? Sennilega er hann alltof dýr.

 • 0,1%

  Hlaupaárið er byrjað en í þessu leiðindaveðri sem hér gengur sífellt yfir er ekki of sterkt til orða tekið að segja að það hefjist með nokkrum rólegheitum.

  Á Strava gat ég skráð mig í áskoranir. Ég hakaði við þá áskorun að ganga a.m.k. 50 km mánuðinum, sem ég gerði með því að ganga reglulega til vinnu og heim. Svo hljóp ég 5K einn laugardaginn og síðan skráði ég mig líka í 10K áskorun.

  Síðasta sunnudag janúarmánaðar hljóp ég síðan mína 10K í snjókomu og hinu séríslenska slabbi. Var með gormana til öryggis því ekki vildi ég renna í hálku.

  Þegar ég nálgaðist Blönduhlíðina aftur á bakaleiðinni var mælingin óðum að nálgast 10K og til öryggis hljóp ég aðeins niður götuna til að ná örugglega markmiðinu. Ég stoppaði úrið á 10,02 km.

  Mér til sárra vonbrigða mældi Strava þessa flottu hlaupaleið sem 9,99 km. Mig vantaði 0,1% upp á að ná markmiðinu mínu þennan mánuðinn. Veit ekki hvort ég nenni svona markmiðaskráningu í hlaupum eftir þetta en ég mun a.m.k. taka nokkra metra aukalega hér eftir.

 • Að heiman á afmælisdaginn

  Ég fór til Kaupmannahafnar á afmælinu mínu í síðustu viku. Missti þar með af dásemdar árlegum afmælismorgunmat með fjölskyldunni en fékk í staðinn dýrindis boð á veitingastað frá góðum vini, blóm og bækur.

  Hótelið sem ég var á heitir Villa Copenhagen og er í gamla central pósthúsinu rétt við Hovedbane. Mjög hipp og kúl en morgunmaturinn gekk hálfbrösuglega. Ég sem borða aldrei morgunmat nema á hótelum og fæ mér yfirleitt bara kaffi fram að hádegi.

  Fyrri morguninn fylgdi stærðarinnar plaststykki með mangókókos-chiagrautnum mínum og seinni morguninn lá þjóninum svo á að hreinsa borðið mitt að hann fjarlægði kaffibollann minn á meðan ég skrapp eftir öðru croissanti. Ég var að bíða eftir að kaffið næði kjörhitastigi. Þegar ég ætlaði að fá mér nýtt kaffi reyndist kaffivélin biluð.

  Ég ákvað auðvitað að láta hvorugt þessara atvika eyðileggja fyrir mér daginn, enda orðin fullorðin manneskja, og átti góða daga í borginni. Best var að koma heim, klyfjuð af bókum, og hitta fjölskylduna aftur. Þegar ég settist um borð í flugvélina sá ég Víðir var í sömu vél. Þá rifjaðist upp fyrir mér að Alma var í sömu vél á leiðinni út.