Home

  • Meira af ást

    Við Kristján eigum 23 ára brúðkaupsafmæli í dag. Tuttugu og þrjú ár!

    Við héldum ekki upp á daginn með sérstökum hætti en í næstu viku förum við í tíu daga siglingu sem mun sennilega toppa allt.

  • Birkir + Anna

    Stór stund! Una elskar bók frá og með blaðsíðu eitt. Ég var að elda og mín kona að lesa. Við og við spurði hún mig um orð en alltaf hélt hún áfram að lesa.

    Vigdis Hjorth er frábær höfundur og skemmtilegur karakter. Ég tengi hana einkum við að hún týndist eitt sinn á leið frá Svalbarða til Íslands…

    Hún kom reyndar tveimur árum seinna og það var sönn ást.

  • Lyftingar

    Af öllum kraftlyftingaæfingum sem við gerum í Afreki finnst mér réttstöðulyftan eiginlega skemmtilegust. Ég er komin upp í 85 kg og stefni óðum á þriggja stafa töluna. Markmiðið er að ná upp í 100 kg fyrir jól, en helst fyrr samt.

    Í gær gerðum við ansi góða réttstöðulyftuæfingu og gerðum mörg sett. Ég náði dáldið þungu í settunum en þá byggi ég upp kraft til þess að ná einni góðri lyftu með þungt á stönginni.

    Hnébeygjan finnst mér ekki alveg eins skemmtileg, finnst mér ekki takast að fara nægilega djúpt niður, en ég hef nú tekið nokkur skref til baka og létt á stönginni til þess að ná betur niður. Ætla að byggja mig upp þannig og reyna að ná meiri þyngd í þessari æfingu líka.

    Bekkpressan er ágæt líka en ég er svo slöpp eitthvað í þessari æfingu að mér finnst hún ekki beinlínis skemmtileg, ekki enn sem komið er að minnsta kosti. Sjáum hvernig það gengur á morgun.

  • Heimilisstörf

    Í sumar höfum við notið þess að hafa þrjár duglegar stelpur í húsinu. Þær Áslaug og Þórdís hafa verið mjög duglegar að taka til hendinni heima og ekki síst hafa þær verið duglegar að elda. Þeim finnst það báðum mjög skemmtilegt og þetta hefur til dæmis komið sér vel þegar við Kristján förum í ræktina kl. 18:15 og komum heim af lyftingaæfingu hungruð eins og úlfar.

    Í kvöld voru hamborgarar í matinn og þegar við komum heim var búið að gera og græja alls konar. Búa til hrikalega góða hamborgarasósu frá grunni, pikkla rauðlauk og sneiða niður alls kyns ferskt grænmeti. Leggja fallega á borðið, grilla brauðin og stilla upp sósum og fíneríi þegar við komum.

    Öllum systrunum finnst líka gaman að fara út í búð og versla í matinn. Við gerum innkaupalista en svo kaupa þær líka það sem þeim dettur í hug að gæti hentað vel eða eitthvað sem passar vel í það sem þær eru að elda. Mamma borgar svo bara í gegnum Aur. Allir glaðir.

    Una er svo meistari í frágangi. Hún hefur nýlega uppgötvað gleðina sem fylgir því að vaska upp með tónlist í eyrunum. Það er stórkostlegt að fylgjast með henni, sönglandi eins og enginn sé að hlusta og niðursokkin í uppvaskið.

  • Af Snúði

    Snúður er í góðum málum hér í nágrenninu. Hann heldur áfram að ríkja eins og konungur í hverfinu og hefur nú fengið langþráð starfsmannaskírteini í Gleðibankanum. Hann er þar flokkaður sem heiðursstarfsmaður og knúsari og ég held að það hlutverk eigi vel við hann.

    Ólin hans Snúðs er nú endanlega týnd. Airtaggið pípti og var í nágrenninu í marga mánuði en okkur tókst aldrei að finna það. Á dögunum lét ólin vita af sér og var þá komin í Sorpu í Gufunesi. Nú er verið að breyta henni í mold.

    Við höfum ekki hugmynd um hvernig ólin hans rataði í Sorpu en nú ættum við að íhuga að fá okkur nýja ól með nýju airtaggi.

  • Kjalvegur hinn forni

    Árleg ferð á fjöll með gönguhópnum góða 20 mínútum sem við höfum ferðast með síðan 2013. Í þetta skiptið var það Kjalvegur hinn forni, miðvikudag til laugardags, fjórir dagar sem gætu allt eins hafa verið 40. Það sem helst skilur þessa ferð frá öðrum ferðum hópsins var veðrið og vosbúðin.

    Við vorum rennandi blaut allan tímann og á köflum var ekki stætt vegna hávaðaroks. Við biðum af okkur rigningar, sváfum ekki fyrir veðurlátum og veðurkvíða og aflýstum einum göngudegi vegna úrhellis og fengum svakalega jeppaferð í staðinn. Félagsskapur og stemning upp á tíu og þessi ferð kemst í sögubækurnar enda alveg ógleymanleg.

    Lykilorð: Hvítárnes, Hvítárnesvatn, Baldurshagi, Hrefnubúðir, Þverbrekknamúli, Fúlakvísl, Þjófadalir, Þjófavellir, Sóleyjardalur, Oddnýjargil. Draugagangur og reimleikar, volk og vosbúð, matur og drykkur, kaffi á skotsuðu, kindagötur og hestastígar. Grettir Ásmundarson, Reynistaðabræður, Jóhannes út Kötlum, Sturlungaöld og Hallgrímur Jónasson í Árbók Ferðafélagsins 1971. Rósin. Sauðamergur, lyngmosi, fjalldrapi, holtasóley, smjörgras og lambagras. Kjóar, lóur, álftir og spóar. Gæsir og endur. Lokrekkjur, fellikojur og gasofnar. Sauðfé. Blautir sokkar.

  • Stór dagur í lífinu

    Það rekur hver stórviðburðurinn annan þessa dagana. Útskrift Áslaugar, sem allt hefur snúist um síðustu vikur, kosningar, jarðarför og uppgjör á dánarbúi svo ekki sé nú minnst á blessaðar framkvæmdirnar. En einn stórviðburð er sérstaklega vert að minnast á í þessum alþjóðlega fjölmiðli; nefnilega 1. júní.

    Öll börn mega nefnilega fara ein í sund fyrsta júní árið sem þau verða tíu ára gömul og þennan dag bar upp í gær, laugardaginn 1. júní. Það rigndi auðvitað heilmikið í gær svo enginn þurfti að fara í sund en í dag kom að því að Una Karítas fór ein í sund ásamt vinkonum sínum.

    Þær tóku þetta alla leið og fóru í ísbúð á eftir. Þvílíkur dagur hjá vinkonunum sætu.

  • Útför PG

    Allt er samkvæmt áætlun. PG var búinn að ákveða hvernig allt ætti að vera; útförin og erfidrykkjan, og nú er því lokið. Allt var svo fallegt; tónlistin var gæsahúðartónlist og presturinn flottur. Þetta allt samkvæmt skipulagi okkar allra besta manns, sem var bílstjóri í eigin lífi fram yfir dauðadag. Pétur Guðfinnsson lést 22. apríl síðastliðinn og útförin var í Neskirkju í dag, 3. maí.

    Í dag minnist ég fyrst og fremst allra gleðistundanna með þessum stórkostlega manni sem ég var svo heppin að fá að kalla afa, og seinna fékk hann nafnið tengdaafi og langafi. Hann var svo stór hluti af lífi okkar fjölskyldunnar að það verður aldrei samt eftir fráfall hans.

    Jól og páskar, sunnudagar og laugardagar, miðvikudagshádegin okkar, þriðjudagssíðdegin, fimmtudagsmorgnar og fösudagskvöldin. Meira að segja mánudagarnir voru með Pétri afa. Við vorum alltaf saman. Og ef við vorum ekki saman, þá vorum við ýmist í símasambandi (símavinir eins og það hét einu sinni) eða að skiptast á skilaboðum í gegnum messenger.

    Þegar ég var lítil stelpa hélt ég að afi minn ynni við það að sækja blöðin. Ég var svo mikið hjá ömmu og afa á Þinghólsbraut og afi var alltaf að koma heim í hádeginu, með blöðin. Um helgar fór hann niður í sjónvarp og sagðist vera að sækja blöðin. Seinna fattaði ég að hann var vakinn og sofinn og yfir starfi sínu sem framkvæmdastjóri Sjónvarpsins en hann var samt aldrei sérstaklega hávær um það.

    Þegar ég varð fullorðin var samband okkar einstaklega náið og við urðum trúnaðarvinir. Við ræddum saman um alla hluti, hann sagði mér frá barnæsku sinni og fullorðinsárum, við skipulögðum framtíðina og samtíðina, fórum saman á sýningar og í leikhús, á kaffihús og í alls konar. Afi kom til okkar í mat eða við til hans og samverustundirnar urðu svo ótal margar.

    Og svo voru það ævintýrin eins og að láta bjarga sér úr hvíldarinnlögn á Hrafnistu, ná sér í fálkaorðu á Bessastöðum, vera á forsíðu Séð og heyrt eða að koma express með almennilegt kaffi á heilsuhælið í Hveragerði. Eða að láta lífga sig við í kerfinu sem er önnur og miklu stærri saga.

    Það er skrítið að núna sé komið að leiðarlokum en um leið fylgir því ákveðinn léttir því afi var kominn á þann stað að hann vildi kveðja. Hugurinn var alltaf bjartur og skarpur en líkaminn fylgdi ekki lengur. Og sem bílstjóri í sínu eigin lífi, þá kaus hann að kveðja á dánardegi elsku bestu Stellu ömmu.

    Hvíl í friði, elsku besti afi minn, og grazie mille. Og ég vona að kaffið sé almennilegt þar sem þú ert núna ❤

  • Nú á ég engan afa

    Pétur afi minn dó í morgun. Bestur og skemmtilegastur, diplómati fram í fingurgóma og ég sakna hans óendanlega mikið. meira um það síðar.

    Alls konar verkefni bíða en ungur maður er með spurningarnar klárar:

    1. Hættir blóðið að renna?

    2. Hættir hjartað að slá?

    3. Er heilinn ennþá?

  • Snemmbúinn sumardagurinn fyrsti

    Í dag kom sumarið mjög skyndilega og með látum. Það hefur verið ansi grátt undanfarið og ansi kalt. Blómin hafa setið saman fastast ofan í moldinni og laufin hafa bara nánast ekki hreyfst úr sporunum. Það hefur ísskápshiti undanfarið sem mér skilst að stafi af þaulsætinni lægð eða hæð einhvers staðar hérna nálægt okkur en nú um helgina losnaði um hana og lífið fékk á sig lit aftur.

    Við nýttum daginn og vorum mikið úti. Baldur hjólaði hér um allt og Una fór um hverfið á hlaupahjólinu sínu. Við vorum uppi í Hlíðaskóla að leika og ég fór út að hlaupa til að klára vikuskammtinn af kílómetrum. Við spiluðum á svölunum (ekki hægt að vera úti í garði vegna framkvæmdanna) og sleiktum sólina. Það var samt bara 8 stiga hiti en þvílíkar átta gráður!

    Um kvöldið fórum við niður á Hlíðarenda að fylgjast með Val í Evrópukeppninni. Það var hrikalega gaman, mikil stemning og Valsmenn taka með sér átta marka mun á leikinn sem verður í Rúmeníu um næstu helgi. Það var sumarleg stemning að labba heim í kvöld eftir leikinn, sólin skein og kvöldlognið var komið og hverfið var allt fullt af rauðklæddum Völsurum.