Það var afar fátítt að Fréttablaðið bærist hingað inn á heimilið, það kom kannski tíu sinnum síðastliðin þrjú ár eða svo, en þegar það barst inn um lúguna litu kettirnir á það sem heimsent salerni fyrir sig og því var blaðið hvort sem er alltaf ólæsilegt. Við söknum þess því ekki mikið, nú þegar Fréttablaðið er ekki lengur borið út í hús.
Við söknuðum þess samt um daginn þegar Una sagði okkur að það væri mynd af sér og vinkonum sinum á forsíðunni. Hún var að klofa snjóruðninga við gangbrautina við Hamrahlíðina á heimleið úr skólanum. Ljósmyndarinn hafði smellt af einmitt þegar Una steig út a götuna. Hún var í bleiku snjóbuxunum.

Una er snjöll og sjálfbjarga. Hún náði sér í eintak af blaðinu þar sem hún er á forsíðunni og sýndi okkur. Nú eigum við blaðið og það er búið að laga þessa ruðninga, þremur vikum eftir að gangstéttarnar voru ruddar.