Fyrir tólf árum síðan eyddum við jólum og nýári á Indlandi. Við dvöldum í þrjár vikur í Puttaparthi sem er bær sunnarlega á Indlandi miðju. Þar bjó þá Sigrún amma og rak skóla fyrir fátæk börn og bjó þeim heimili líka. Sjálf bjó amma í því sem við kölluðum ömmuhús.
Við ferðuðumst líka um Suður-Indland með Sigrúnu ömmu og leiðsögumanni sem sá um aksturinn og sýndi okkur helstu staði. Áslaug og Þórdís voru fimm og þriggja ára sem gerði ferðina ennþá ævintýralegri en ella því alls staðar vöktu þessar ljóshærðu prinsessur athygli innfæddra.
Í einu stoppinu áðum við í vegasjoppu, hálfgerðum Botnsskála eiginlega, og þar gátum við fengið okkur bæði að borða og drekka. Sjoppan var greinilega vinsæll áningarstaður því heilu rútufarmarnir stoppuðu í vegarkantinum og fólk þusti út í glugga til að skoða stelpurnar tvær sem léku sér með dósir og steina fyrir framan vegasjoppuna.

Facebook minnti mig á þessa ferð með því að sýna mér mynd af fólkinu í rútunni. Myndavélarnar allar á lofti og stelpurnar tvær grunlausar utan myndar.