Hlaupaárið er byrjað en í þessu leiðindaveðri sem hér gengur sífellt yfir er ekki of sterkt til orða tekið að segja að það hefjist með nokkrum rólegheitum.
Á Strava gat ég skráð mig í áskoranir. Ég hakaði við þá áskorun að ganga a.m.k. 50 km mánuðinum, sem ég gerði með því að ganga reglulega til vinnu og heim. Svo hljóp ég 5K einn laugardaginn og síðan skráði ég mig líka í 10K áskorun.
Síðasta sunnudag janúarmánaðar hljóp ég síðan mína 10K í snjókomu og hinu séríslenska slabbi. Var með gormana til öryggis því ekki vildi ég renna í hálku.

Þegar ég nálgaðist Blönduhlíðina aftur á bakaleiðinni var mælingin óðum að nálgast 10K og til öryggis hljóp ég aðeins niður götuna til að ná örugglega markmiðinu. Ég stoppaði úrið á 10,02 km.
Mér til sárra vonbrigða mældi Strava þessa flottu hlaupaleið sem 9,99 km. Mig vantaði 0,1% upp á að ná markmiðinu mínu þennan mánuðinn. Veit ekki hvort ég nenni svona markmiðaskráningu í hlaupum eftir þetta en ég mun a.m.k. taka nokkra metra aukalega hér eftir.