Una Karítas fæddist á Valentínusardaginn árið 2014 og varð því níu ára gömul í vikunni. Það var mikil spenna fyrir deginum og spennan er ekki síðri fyrir 10 ára afmælið að ári, tveggja stafa tala og stórafmæli.

Skömmu áður en ég varð ólétt að henni dreymdi mig fyrir nafninu. Draumurinn var á þá leið að ég var ólétt og ég fór ofan í peysuna með höndina og náði í litla stúlku. Ég hélt á henni um stund fyrir framan mig en sá að hún var ekki reiðubúin að fæðast strax. Setti hana því aftur ofan í peysuna en vissi í draumnum að ég mundi brátt eignast stúlkubarn sem ætti að heita Karítas.
Þennan draum ræddi ég auðvitað heima og svo við minn kæra vin Þorstein frá Hamri, en við ræddum gjarnan drauma þegar við hittumst.
Mánuði síðar varð ég ólétt og það reyndist vera kærleiksbarnið Una Karítas sem var á leiðinni. Hún átti að koma 30. janúar en lét bíða eftir sér. Kom á föstudeginum 14. febrúar eftir gangsetningu.
Á meðan ég beið eftir hríðum sat ég og heklaði teppi handa henni og það varð bara jafnstórt og hríðarnar leyfðu. Karlakór stóð fyrir utan gluggann allan daginn og söng Brennið þið vitar með miklum bravúr. Seinna kemst ég að því að það var verið að taka upp auglýsingu en þá fannst mér þetta fullkomlega eðlilegt. Það hefur alltaf einhver einstakur kraftur fylgt henni Unu minni.