Þórdís og vinkonur hennar fengu mömmurnar með sér í vinkonuferð til London. Ferðin var skipulögð með löngum fyrirvara og allir fengu tíma til að hlakka til. Leit ekki vel út á tímabili vegna verkfallana en þau höfðu engin áhrif á þessa tilteknu ferð.

Við gistum í Shore Ditch en þangað hafði ég aldrei komið. Í hverfinu er mikil veggjalist, verk eftir Banksy meðal annars og Brick Lane sem er fræg gata. Í þessum borgarhluta búa margir með bengalskan uppruna og stemningin er alveg sérstaklega lifandi og skemmtileg. Hótelið var gott og mun huggulegra en bókamessuhótelin við Tottenham Court.
Hápunktur ferðarinnar var Mamma Mia partýið þar sem stelpurnar dönsuðu og sungu allt kvöldið og skemmtu sér og öðrum hrikalega vel, en annars var allt vel lukkað: út að borða, búðarferðir og labb um alla borg.
