Um daginn poppaði upp hjá mér skemmtileg minning á Facebook. Þetta var draumur sem mig dreymdi fyrir sex árum síðan, vorið 2017.
Í draumnum var ég stödd á bókamessu og komin á fund með agenti. Hann spyr hverju ég sé að leita að og ég svara að bragði að ég sé að leita að up market commercial og women’s fiction, en það er auðvitað það sem ég leita stöðugt að.
Þá svarar okkar maður harla glaður að hann sé einmitt með það sem ég er að leita að! Svo dregur hann upp heildarverk Shakespeare, leðurinnbundnar bækur alsettar gyllingum.
Ég velti þessu fyrir mér um stund og vóg og mat möguleikana. Loks stundi ég upp að jú, þetta gæti eflaust gengið, en það þyrfti að skoða það að skipta um kápu…